132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Málefni Listdansskóla Íslands.

[10:37]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Tilefni þessarar utandagskrárumræðu er sú ákvörðun mín sem menntamálaráðherra að vinna að breytingum á skipulagi listdanskennslu á framhaldsskólastigi og færa skipulag hennar til þess sem er við lýði um nám á framhaldsskólastigi og til þess forms sem gildir og mun gilda um annað listnám. Í kjölfar þess að sú ákvörðun var kynnt hefur komið fram nokkur gagnrýni á þessa fyrirætlan og látið í veðri vaka að hér sé um að ræða ráðstöfun sem muni veikja allan grundvöll fyrir listdansnámið í landinu. Svo er að sjálfsögðu ekki, eins og ég mun nú gera nánar grein fyrir.

Það hefur verið stefna mín sem menntamálaráðherra að skipulag listnáms á framhaldsskólastigi fylgi þeirri meginreglu að nám á því skólastigi verði á forræði viðurkenndra framhaldsskóla sem bjóða upp á nám til lokaprófs á framhaldsskólastigi samkvæmt aðalnámskrá. Miðað er við að kennsla í bóklegum þáttum námsins fari fram í framhaldsskólum en verkleg kennsla eftir atvikum í viðkomandi skólum eða í samstarfi við aðila sem uppfylla kröfur samkvæmt gildandi námskrá.

Með þeirri ákvörðun sem liggur fyrir mun fyrirkomulag listdanskennslu verða gert hliðstætt því sem tíðkast varðandi kennslu í öðrum listgreinum á framhaldsskólastigi. Samkvæmt þessari stefnu er miðað að því að sérskólar á listasviði geti starfað með sjálfstæðum hætti án þess að þeir lúti forræði opinberra aðila. Um leið er þeim ætlað það hlutverk að veita nemendum í listgreinum menntun hver á sínu sviði, menntun sem er viðurkenndur hluti af námi þeirra á framhaldsskólastigi, hvort heldur námið er bundið við kjörsvið á tilteknu listgreinasviði eða áfangar eru teknir sem stakir valáfangar. Með þessu vinnst það að námsframboð og valfrelsi nemenda einskorðist ekki við það nám sem sá framhaldsskóli sem þeir stunda nám í hefur í boði. Þetta nýtist ekki síst litlum skólum og skólum sem af öðrum ástæðum hafa ekki getað boðið upp á verklegt nám eða mjög sérhæft. Þessu fyrirkomulagi er ætlað að tryggja sveigjanleika í starfi framhaldsskólanna og um leið valfrelsi nemendanna. Samhliða þessu er gert ráð fyrir að til verði sérskólar sem geti sérhæft sig á einstaka sviðum. Með samstarfi við fleiri framhaldsskóla verði þannig tryggt að fámenni á þessum námsbrautum í einstaka skólum verði ekki til þess að draga úr gæðum menntunarinnar og kennslunnar. Um leið verði sjálfstæðum skólum er uppfylla kröfur um gildandi námskrá á sviði listgreina, svo sem tónlistarskólum, listdansskólum eða öðrum skólum, skapaður betri og tryggari grundvöllur fyrir starfsemi sína bæði í faglegu og fjárhagslegu tilliti. Þessir skólar geta jöfnum höndum starfað í samstarfi við framhaldsskólakerfið eða á eigin forsendum og ábyrgð og boðið upp á nám í viðkomandi greinum á almennum markaði hvort sem er í formi heildstæðs náms eða námskeiða. Ég efast ekki um, virðulegi forseti, að þessi stefna er skynsamleg og hún er í þágu nemendanna og langtímahagsmuna þeirra listgreina sem í hlut eiga.

Í ráðuneytinu er verið að leggja lokahönd á námsgrein í listdansi í samráði við fagaðila í greininni. Væntingar standa til þess að kennsla hefjist samkvæmt þeirri námskrá þegar á næsta ári. Það skiptir miklu máli að námi þeirra nemenda sem nú stunda nám við Listdansskóla Íslands eða munu stunda listdansnám sé sköpuð sú umgjörð með námskrá og skipulagi sem er nauðsynleg ef tryggja á að listdans þróist hér áfram af þeim metnaði sem einkennt hefur þróun undanfarandi ára.

Ég hef hlustað á þær áhyggjuraddir sem fram hafa komið á undanförnum missirum um brotthvarf Listdansskóla Íslands. Að brotthvarfið kunni að fela í sér að verið sé að skerða möguleika og getu okkar ágæta menntakerfis til að bjóða upp á frambærilegt nám í listdansi, að menntunartækifærin verði fábreyttari og takmarkaðri. Ég vil lýsa því sérstaklega yfir að ég mun gera það sem nauðsynlegt er til að tryggja að svo verði ekki.

Sú breyting sem stefnt er að er ekki gerð í sparnaðarskyni. Við ætlum að tryggja að umgerð námsins verði treyst og að námið fái tryggari viðurkenningu og sess innan framhaldsskólastigsins. Ef ríkið þarf að koma tímabundið að því að tryggja viðhlítandi tækifæri og framhald á námi þeirra sem nú stunda nám við Listaháskóla Íslands þannig að þeir geti stundað námið samkvæmt komandi námskrá þá mun ég tryggja að svo verði.

Ég get enn fremur upplýst það, virðulegi forseti, að skólar sem staðið hafa fyrir listdanskennslu um áraraðir hafa haft samband við ráðuneytið og lýst yfir vilja til að taka upp kennslu samkvæmt nýrri námskrá. Auk þess hafa verið í gangi samræður milli fulltrúa ráðuneytisins og nokkurra núverandi starfsmanna Listdansskóla Íslands. Þeir hyggjast setja á stofn skóla sem starfi samkvæmt námskrá og munu leita eftir samstarfi við skóla sem hyggjast bjóða upp á listnámsbraut eða listdans sem val. Slíkur skóli mundi vitanlega einnig bjóða upp á nám fyrir yngri nemendur og ég vonast til þess að sveitarfélögin veiti þessari starfsemi stuðning líkt og sum þeirra gera nú þegar.