132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Málefni Listdansskóla Íslands.

[10:50]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ákvörðun menntamálaráðherra um að leggja niður Listdansskóla Íslands voru pólitísk afglöp. Engin rök hafa komið fram til réttlætingar á þeim afglöpum. Það voru afglöp og vond ákvörðun sem var tekin út frá þröngum hagsmunum stjórnsýslunnar á kostnað listdanskennslunnar í landinu. Þar réð för pólitískur kverúlans Sjálfstæðisflokksins en ekki fagleg sjónarmið um öflugt nám. Ákvörðunin var þess vegna tekin án samráðs við fagaðila og þá sem best til þekkja. Áður en ákvörðunin var tekin átti að sjálfsögðu að tryggja listdanskennslu til næstu ára í samvinnu við fólkið í greininni, listdanskennslu á grunn- og framhaldsskólastigi þar sem samfella námsins er tryggð og fyrsta flokks aðstaða til að stunda þetta viðkvæma og sérstaka nám.

Listdansinn er nám sem krefst samfellu og samvinnu úrvalsnemenda þar sem hvatinn og hvatningin felst ekki síst í samneytinu við aðra nemendur og samkeppni þeirra í millum. Því á ekki að slíta skólann í sundur og dreifa kröftum og samfellu grunn- og framhaldsnámsins í listdansi. Það er í sjálfu sér fráleit ráðstöfun sé tekið mið af eðli námsins. Námið krefst sérhæfðrar æfingaaðstöðu og faglegrar kennslu þar sem aðstaða er sérhæfð og fyrst flokks.

Það var afleit ákvörðun hjá menntamálaráðherra að taka einhliða ákvörðun um að leggja niður skólann út frá hagsmunum stjórnsýslu og pragmatisma án nokkurs samráðs við hagsmuni listnámsins og þeim sem að því standa. Til dæmis var ekkert samráð haft við grunnskólann og sveitarfélögin í landinu. Núna mánuðum eftir að ákvörðunin var tekin er enn þá ekkert samráð haft við sveitarfélögin í landinu og það er fullkomlega með ólíkindum.

Þetta mál er allt ráðherranum til vansa og því ástæða til að nota þessa umræðu nú og þetta tækifæri til að skora á hæstv. menntamálaráðherra að falla frá þessari vondu ákvörðun og leiðrétta afglöpin.