132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Bensíngjald og olíugjald.

30. mál
[11:46]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að gefa sér tíma til að koma hér upp í andsvar við mig vegna þessa frumvarps því að það verður að segjast eins og er að áhugi stjórnarliða á þessu máli virðist vera afskaplega lítill.

Það er enginn að kenna ríkissjóði um eitt eða neitt. Hv. þingmaður verður aðeins að velta fyrir sér í vörn sinni fyrir ríkissjóð að það er ekkert verið að ráðast á ríkissjóð með þessu frumvarpi. Við erum ekki að saka ríkissjóð um að olíuverð hafi hækkað. Við erum að leggja fram frumvarp um að ríkissjóður taki sig til í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru og taki þátt í því að minnka kostnað þeirra sem þurfa á þessari vöru að halda og þurfa að greiða miklu hærra verð en þeir áður gerðu vegna þess að olíuverð hefur hækkað á heimsmarkaði.

Hv. þingmaður getur haft þá skoðun að ríkissjóður eigi ekki að gera það, ríkissjóði komi bara ekkert við hvernig þegnar þessa lands hafi það. Hann getur haft þá skoðun ef hann vill en það er skoðun flutningsmanna þessa frumvarps að það sé nauðsynlegt að ríkissjóður sé á tánum, að ríkisstjórnin sé vakandi fyrir breytingum sem verða á lífi fólks í landinu og taki þátt með fólki til að bregðast við aðstæðum eins og hér eru uppi.

Það er gott að olíuverð á heimsmarkaði hefur lækkað aftur örlítið. Það er samt sem áður það hæsta í Evrópu hér á Íslandi. Ef hv. þingmanni þykir bara rétt og gott að þannig sé það og þannig verði það þá verður hv. þingmaður að fá að hafa þá skoðun en ég er á annarri skoðun. Ég get ekki tekið undir að frumvarpið sé óþarft. Ég tel frumvarpið vera prófraun á það, eins og ég sagði áðan, hvort vilji sé innan stjórnarliðsins til að taka aðeins þátt í því að lækka þetta verð og mér heyrist sá vilji reyndar vera afskaplega lítill ef við hlustum á hv. þm. Pétur Blöndal.