132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Lífeyrisréttindi hjóna.

33. mál
[12:11]
Hlusta

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir undirtektir hans við þetta mál. Ég get vel samþykkt þá skýringu sem hann gaf varðandi þá kynslóðaskiptingu sem orðið hefur og jafnvel með breytingu á hugsunarhætti líka. Hinu er þó ekki að leyna að enn eru til þau skipti á vinnumarkaði, þar sem annar er útivinnandi, og af því hef ég mestar áhyggjur.

Hins vegar er það rétt sem hv. þingmaður kom inn á að mörg dæmi eru um að bæði hjónin vinni úti og dæmi um að eiginkonan hafi allnokkuð hærri laun en karlinn. Þetta virkar auðvitað í báðar áttir og er rétt að skoða það.

Þetta mál verður þó ekki unnið í neinu offorsi. Það yrði auðvitað unnið í fullri sátt við þá aðila sem stýra og stjórna því vandasama verki að halda utan um eigur og skuldbindingar lífeyrissjóðanna. Þess vegna tel ég eðlilegt að leggja fram tillögu um að skipuð verði sérstök nefnd til að fara yfir málið og skoða. Það er, eins og fram kemur í greinargerðinni, í hæsta máta óeðlilegt að enn í dag, jafnvel að nýbreyttum hjúskaparlögum, skuli enn standa að lífeyrisréttindi skuli standa utan skipta og því sé það allt upp á þann sem hefur áunnið sér lífeyrisréttindin komið, hvort hann af góðvild sinni samþykki að óunnin lífeyrisréttindi komi til skipta við slit á hjúskap.