132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Göngubrú yfir Ölfusá.

38. mál
[12:48]
Hlusta

Flm. (Kjartan Ólafsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson er óánægður með að hafa ekki fengið að vera með á þessari þingsályktunartillögu. Hún hefur nú legið nokkuð lengi frammi í þinginu og mig undrar svolítið að hann ekki hafi séð neitt um hana. En það er gott ef víðtækur stuðningur er við málið og það ber að þakka þótt ekkert hefði verið á móti því að aðrir þingmenn væru flutningsmenn að málinu.

En ég átta mig ekki á spurningu hv. þingmanns um það hvort hér sé einhverju haldið leyndu um nýja brú yfir Ölfusá við Laugardæli. Þetta er mál sem hefur verið lengi á dagskrá í kjördæminu. Eins og fram kemur í greinargerðinni er sú brú ekki á samræmdri samgönguáætlun en það er mikið áhugamál heimaaðila að svo sé. Ég þekki kannski betur en margir aðrir hvers konar umferðarhnútur verður við Selfoss í mikilli umferð á sumardögum og í aðalskipulagi hefur lengi verið tekið frá land fyrir verkstæði og brúarstæði fyrir þessa brú. En við munum síðar ræða samræmda samgönguáætlun til lengri tíma og ég vænti þess og vona að sú brú fari inn á þá áætlun.