132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Göngubrú yfir Ölfusá.

38. mál
[12:49]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að heyra að þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi lumi ekki á einhverjum upplýsingum, til að mynda frá ríkisstjórninni, varðandi hugsanlega nýja brú yfir Ölfusá. Það er að sjálfsögðu alveg rétt, eins og fram hefur komið, að það er mikil þörf á að það mannvirki verði reist og það hið fyrsta. Það er í raun og veru kraftaverk að ekki skuli hafa orðið stórslys á brúnni sem nú er í tengslum við þá miklu umferð sem fer um hana. Að sjálfsögðu ætti að setja það í forgang að hefja byggingu nýrrar brúar yfir Ölfusá.

Þar fyrir utan vil ég enn og aftur ítreka að ég styð það mál sem hér liggur fyrir. Þetta er á margan hátt ágætt mál. Ég geri mér þó grein fyrir þeirri hættu sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson benti á áðan að svona göngubrú gæti hugsanlega tafið fyrir því að farið yrði í framkvæmdir við nýja brú. Þetta er spurning sem er sjálfsagt að velta upp. Ég sé að hv. þm. Kjartan Ólafsson hristir höfuðið og er þessu ekki sammála. Við skulum bara vona að það sé svo. En ég vona að þessi þingsályktunartillaga fái viðeigandi meðferð í samgöngunefnd og að hún verði afgreidd þaðan og að farið verði í gera úttekt á framkvæmdinni. Ég er a.m.k. sannfærður um að þetta litla mál mun verða til þess að hreyfa við brýnni umræðu um að farið verði út í að byggja nýtt brúarmannvirki yfir Ölfusá.