132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Fjölgun og staða öryrkja.

[14:01]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Aftur og aftur gengur hæstv. heilbrigðisráðherra gegn skýrum ákvæðum meginreglna Sameinuðu þjóðanna um skyldu stjórnvalda til að hafa samráð við okkur fatlaða um aðgerðir sem beinast að okkur. Tilkynnt er að afnema eigi bensínstyrk til hreyfihamlaðra. Sett er reglugerð sem sviptir þá sem hafa leyft sér að hafa tekjur á árinu bótum nú í nóvember og desember. Tilkynnt er um sameiningu þjónustustofnana við fatlaða án þess að orða það við félögin sem í hlut eiga og þjóna á. Hæstv. ráðherra lætur jafnvel vinna heila áróðursskýrslu um hversu mikinn ágóða við öryrkjar höfum af örorkunni og hve okkur öryrkjum fjölgi óeðlilega, án þess að hafa um það nokkuð samráð við heildarsamtök fatlaðra.

Virðulegur forseti. Ég mótmæli þeirri lítilsvirðingu sem okkur öryrkjum er sýnd aftur og aftur í athöfnum hæstv. heilbrigðisráðherra. Við öryrkjar erum ekki aumingjar sem hægt er að birta tilskipanir eða palladóma um, einhliða af hálfu stjórnvalda. Við erum fólk og það á að tala við okkur eins og fólk um málefni okkar og taka mark á sjónarmiðum okkar áður en ákvarðanir eru teknar, semja við okkur og standa við samninga sem gerðir eru við okkur.

Við hljótum að spyrja enn einu sinni úr þessum stól hvort hæstv. heilbrigðisráðherra ætli aldrei að standa við samninginn sem hann gerði fyrir síðustu kosningar. Hann hefur sjálfur sagt úr ræðustólnum að hálfan milljarð vanti þar upp á. Á það virkilega að verða svo, síðar í þessum mánuði, að Öryrkjabandalagið þingfesti fyrir héraðsdómi enn eitt málið gegn ríkisstjórninni svo að hæstv. ráðherra standi við orð sín? Eða er hæstv. heilbrigðisráðherra tilbúinn til að lýsa því yfir að hann sé hættur við að afnema bensínstyrk til hreyfihamlaðra, þótt ekki væri nema vegna þess að eftir að ég tók það mál upp í 1. umr. fjárlaga kom strax í ljós að fyrir því er ekki þingmeirihluti?

Virðulegur forseti. Hin sorglega fjölgun öryrkja er ekki afsökun fyrir því að skerða bætur eða svíkja samninga. Þvert á móti á hún að verða okkur tilefni til að huga enn betur að kjörum öryrkja eftir því sem fleiri þurfa að búa við þau kröppu kjör sem ævikjör sín. Nýgengi örorku ræðst fyrst og fremst af atvinnu- og efnahagsmálum. Alþjóðavæðing og aukin krafa um framleiðni á vinnumarkaði leiðir m.a. til þess að atvinnulífið hafnar í vaxandi mæli þeim sem minnsta starfsgetu hafa og tekur þess í stað dugmikið innflutt vinnuafl eða starfsmannaleigur í þjónustu sína. Þetta er ekki séríslenskt. Þetta gerist um öll Vesturlönd og ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann sé ekki sammála mér um að vinnumarkaðsmál séu meginorsök nýgengi í örorku og hvort hann hafni ekki þeim kenningum örorkuskýrslunnar, þeim hlægilegu kenningum, að afslættir af strætómiðum og önnur vildarkjör okkar öryrkja leiði til þess að heilbrigt fólk flykkist í stórum stíl inn í gósenland örorkubótanna, óverðskuldað.

Það má líka spyrja ráðherrann hvernig á því stendur að þeir sem verða öryrkjar virðast eiga erfitt með að hasla sér aftur völl á vinnumarkaði. Er hann t.d. sammála hæstv. félagsmálaráðherra sem hefur nýverið sagt að starfsendurhæfing sé öll í skötulíki? Hví hefur ráðherrann ekki hafst að í þeim efnum árum saman? Ég spyr líka hvort það sé ekki lýsandi um áhugaleysi stjórnvalda á viðleitni öryrkja til vinnu að þeir skuli þurfa að leita til atvinnurekenda eða eftir styrkjum frá félagsmálakerfinu fyrir hjálpartækjum á vinnustað. Ég er svo heppinn að vera þjóðkjörinn fulltrúi á Alþingi. Alþingi borgar umyrðalaust fyrir mig þau hjálpartæki sem ég þarf til starfa. En þannig eru ekki allir vinnustaðir. Það er lýsandi fyrir áhugaleysi stjórnvalda á þátttöku öryrkja á vinnumarkaði hvernig tekjutengingum og stuðningi í hjálpartækjum er varið, eða öllu heldur ekki varið. Nýjasta dæmið er reglugerð frá síðasta mánuði sem varðar öryrkja sem hafa verið duglegir við að afla sér tekna á yfirstandandi ári, hafa farið út á vinnumarkaðinn og unnið sér inn peninga. Tryggingastofnun er gert að skrúfa fyrir bótagreiðslur til þeirra núna í nóvember og desember, á aðventunni. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann endurskoði ekki þá reglugerð strax.