132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Fjölgun og staða öryrkja.

[14:21]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Samkvæmt örorkuskýrslunni svokölluðu er kostnaður ríkissjóðs vegna örorku talinn nema um 18 milljörðum kr. árlega. Þá erum við að tala um beinan kostnað ríkissjóðs. Þá er ótalið tjónið vegna minni framleiðslugetu þjóðarinnar, vegna fólks sem hverfur af vinnumarkaði sem er talið nem 34 milljörðum kr., samkvæmt sömu skýrslu. Mér finnst sjálfsagt að hafa orð á þessu en við verðum að skoða dæmið í stærra samhengi því að þetta verður ekki bara mælt í krónum. Lykillinn að almennri velferð er að hver og einn geti nýtt krafta sína, unnið það starf sem hæfir getu hans og verið virkur þátttakandi í samfélaginu. Við sjáum a.m.k. að til mikils er að vinna með að við finnum leiðir til að draga úr þeirri þróun sem verið hefur undanfarin ár.

Einkum er tvennt uggvænlegt við fjölgun öryrkja á Íslandi. Annars vegar að hlutfallslega fjölgar mest í hópi yngri öryrkja, en þeir eru samkvæmt sömu skýrslu 136% fleiri en á hinum Norðurlöndunum. Hitt er hve fáir eiga afturkvæmt út á vinnumarkaðinn. Við hljótum því að leggja áherslu á aðgerðir eins og virka starfsendurhæfingu sem geti stuðlað að því að aðstoða öryrkja að komast á vinnumarkaðinn. En jafnframt þarf að tryggja framboð starfa við hæfi hvers og eins. Ég tel líka brýnt að við ráðumst í að draga úr jaðaráhrifum tekna í almannatryggingakerfinu, sem eru umtalsverð.

Síðast en ekki síst verður að horfast í augu við samspil örorku- og atvinnuleysisbóta og lægstu launa. Við verðum að tryggja kerfi sem er vinnuhvetjandi en ekki vinnuletjandi. Það þarf að vera arðsemi fólgin í að hverfa af bótum og fara út á vinnumarkað. Ég tel að lækkun lægstu launa séu eitt lykilatriði í því að snúa við þeirri þróun sem verið hefur undanfarin ár. Ég minni á, frú forseti, að konum hefur fjölgað meira en körlum í hópi öryrkja á síðustu árum.