132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Öryggi og varnir Íslands.

40. mál
[14:56]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér tímabæra tillögu til þingsályktunar um að skipuð verði opinber nefnd um öryggi og varnir Íslands. Ég verð þó að segja eins og er að ég varð fyrir ákveðnum vonbrigðum þegar ég kom inn í þingsal og sá að þetta mál var komið á dagskrá að eingöngu sætu í þingsalnum þingmenn Samfylkingarinnar og engir aðrir. Ég velti því fyrir mér og brá mér því fram til að skoða hvort verið gæti að engir aðrir þingmenn væru í húsinu sem hefðu áhuga á þessu máli og komst þá að því mér til mikillar undrunar og furðu að á reglulegum þingfundi sem hér stendur eru einungis níu þingmenn í þinghúsinu og þeir eru allir frá Samfylkingunni. Ég veit ekki hvort þetta lýsir að einhverju leyti áhuga þingmanna annarra flokka á því málefni sem við erum að ræða en vona satt að segja að svo sé ekki.

Eins og ég sagði í upphafi er þetta tímabær tillaga að taka fyrir og í raun hálfundarlegt að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki vera búin að setja af stað slíka formlega vinnu miðað við þær miklu breytingar í alþjóðlegu umhverfi sem við höfum upplifað á undanförnum árum og nægir þar að nefna t.d. hryðjuverkaógnina eins og hún er. Sú heimsmynd sem við horfum á er allt önnur en við höfum átt að venjast hingað til og stöðugt eru miklar breytingar í gangi. Ég held að allir sem eitthvað fylgjast með geri sér grein fyrir að heimurinn er í raun að minnka og alþjóðavæðingin sem við höfum orðið vitni að gerir það að verkum að hver og ein sjálfstæð þjóð hlýtur að þurfa að vega og meta stöðu sína í samfélagi þjóðanna, sérstaklega með tilliti til þess hvernig öryggis er gætt.

Í þessari þingsályktunartillögu er talað um að skipa níu manna nefnd og hlutverk hennar er að gera úttekt á stöðu öryggis- og varnarmála á Íslandi í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa í heiminum frá lokum kalda stríðsins. Gert er ráð fyrir að þingflokkarnir tilnefni þessa níu aðila, a.m.k. einn fulltrúi komi frá hverjum þingflokki í nefndina, og gert er ráð fyrir eins og fram kemur í greinargerð að þingflokkarnir skipi sérfræðinga á vegum utanríkismála í þessa nefnd þannig að þetta geti orðið faglegt og gott starf.

Eins og fram kemur í tillögunni eru verkefni nefndarinnar fimmþætt:

Í fyrsta lagi að gera úttekt á stöðu Íslands á hinum alþjóðlega vettvangi og reyna að skilgreina með einhverjum hætti þá vá sem menn sjá fyrir sér að geti steðjað að landinu, hvort sem það er af völdum hernaðar annarra ríkja á hendur okkur, af völdum hryðjuverka eða annars konar öðrum ógnum sem þarf að skilgreina. Það geta verið mengunarslys, það geta verið faraldrar eins og verið er að tala um núna í sambandi við fuglaflensuna og hættan á heimsfaraldri, að nefnd þessi geri í raun geri úttekt á stöðunni eins og hún er og hvað það er sem helst geti ógnað öryggi okkar sem hér búum.

Í öðru lagi að kanna hvernig og hvort slíkar úttektir hafi farið fram í nágrannalöndunum og reyna að nýta þá reynslu sem þeir aðilar sem að þeim úttektum hafa unnið búa að eftir skoðun eins og hér er verið að tala um.

Í þriðja lagi að greina stöðu Íslands að alþjóðalögum, þ.e. gildi varnarsamningsins o.s.frv. Það fer ekki fram hjá nokkrum manni að okkur gengur hálfilla að komast að niðurstöðu varðandi varnarsamninginn við Bandaríkjamenn. Þær samningaviðræður sem átt hafa sér stað lengi — ég er nú ekki viss um að rétt sé að kalla þær viðræður sem fram fara samningaviðræður eftir síðustu fréttir, okkur hefur verið skýrt frá því af hæstv. utanríkisráðherra að það séu engar samningaviðræður í gangi heldur eingöngu einhverjar óformlegar þreifingar og maður gerir sér í sjálfu sér ekki almennilega grein fyrir á grundvelli hvaða vinnu þær þreifingar fara fram. Við hljótum að þurfa að vinna heimavinnunna okkar svolítið betur en gert hefur verið þannig að þegar við komum að því samningaborði, sem vonandi verður fljótlega að einhverjir formlegir samningar um varnarsamninginn hefjist og hvernig honum verður fylgt eftir, þá komum við undirbúin á einhvern hátt um það hvernig við viljum sjá vörnum Íslands háttað og hvernig við teljum að öryggi íbúanna hér sé best borgið í þeim heimi sem við lifum í núna.

Í fjórða lagi að fjalla sérstaklega um erindi og stefnu Íslands í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna með tilliti til þess framboðs sem loksins hefur verið staðfest að við ætlum okkur í og erum í. Við hljótum að þurfa að fara í gegnum þá vinnu á vettvangi Alþingis að gera okkur grein fyrir hvert hlutverk okkar verður, hverju við ætlum okkur að ná fram með því að sækjast eftir því að gerast aðilar að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, og náum við því sæti, hvernig við ætlum að beita okkur og hvað það er sem við ætlum að leggja áherslu á. Auðvitað veit ég að það hlýtur að hafa farið fram talsverð vinna og skoðun í utanríkisráðuneytinu varðandi þetta mál en Alþingi á að koma að þessari vinnu.

Í fimmta lagi að gera ráðstafanir innan stjórnkerfisins til að tryggja nauðsynlegan viðbúnað og öryggi landsins. Ég held að þegar farið hefur verið í gegnum hvaða vá það er sem að okkur getur steðjað og hvernig við viljum tryggja öryggi og varnir þá hljóti að fylgja að því sé fylgt eftir á raunverulegan hátt hvernig við ætlum að innleiða þetta í stjórnkerfið og tryggja nauðsynlegan viðbúnað og öryggi.

Í þingsályktunartillögunni er talað um að nefndin skili niðurstöðum sínum innan árs frá því að tillagan er samþykkt með skýrslu til Alþingis. Þetta er ekki þingsályktunartillaga um að ráðherra skipi nefnd eða ráðherra sé falið að gera þetta eða hitt heldur tillaga til þingsályktunar um að nefnd þessi verði skipuð af Alþingi, hún vinni sína vinnu sem hluti af löggjafarvaldinu og skili síðan skýrslu til Alþingis þar sem umræður geti farið fram um hana og menn ráðið ráðum sínum á vettvangi löggjafarsamkomunnar en ekki eingöngu í ráðuneytum eða á vettvangi framkvæmdarvaldsins. Gert er ráð fyrir að nefndin ráði til sín starfsmann og sá starfsmaður verði ritari nefndarinnar.

Eins og heyrist af þessari lýsingu er tillagan nokkuð viðamikil. Hún tekur á nokkuð mörgum þáttum er varða öryggi okkar og varnir og að nauðsynlegt sé að við hugum betur að því en gert hefur verið hver staða okkar er í hinni nýju heimsmynd og við reynum að setja þessa vinnu eins hratt og vel af stað og mögulegt er. Ég trúi því og vona að enda þótt þingmenn annarra flokka séu ekki í salnum eða hlusti á þessa umræðu þá taki þeir þátt í því með okkur að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og gera hana að raunveruleika.