132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Öryggi og varnir Íslands.

40. mál
[15:04]
Hlusta

Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það vekur óneitanlega nokkra athygli, eins og kom fram hjá hv. þm. Samfylkingarinnar Jóni Gunnarssyni, hversu lítinn áhuga þingmenn annarra flokka sýna þessu máli, þ.e. tillögu sem hér er flutt um að skipa nefnd til að móta stefnu um öryggi og varnir Íslands. Í sjálfu sér þarf það kannski ekki að koma manni mjög mikið á óvart vegna þess að sú stefna er einfaldlega uppi hjá ríkisstjórninni að hleypa helst engum að vinnu eða stefnumótun sem lýtur að þeim málum sem einstök ráðuneyti eru með til meðferðar.

Það er ekki tilviljun að það er verið að vinna frumvarp til laga um Ríkisútvarpið uppi í menntamálaráðuneyti og án þess að þar komi nokkur að sem eigi hagsmuna að gæta í málinu, hvað þá að stjórnarandstaðan komi þar nokkurs staðar nærri. Það er ekki tilviljun að það er verið að vinna frumvarp til laga um málefni grunnskólans án þess að þar komi nokkur að, ekki einu sinni sveitarfélögin í landinu sem reka þó grunnskólann eða aðrir aðilar, hvað þá stjórnarandstaðan, að sjálfsögðu ekki. Það er engin tilviljun að verið er að setja reglugerðir um málefni fatlaðra og öryrkja án þess að Öryrkjabandalagið komi þar nokkurs staðar nærri. Svona gæti ég áfram talið. Það er einfaldlega stefna þessarar ríkisstjórnar að hafa sem minnst samráð við aðra aðila hvort sem það er stjórnarandstaðan eða hagsmunaaðilar í þessu samfélagi. Því miður er öll okkar stjórnsýsla orðin gegnsýrð af þessu viðhorfi og finnst þetta sjálfsögð og eðlileg vinnubrögð að það sé bara ráðskast um mál einhvers staðar uppi í einhverjum ráðuneytum með ágætu fólki eflaust en fólki sem hefur bara takmarkaða sýn á samfélagið vegna þess að það getur ekki endurspeglað alla þá ólíku hagsmuni og þau sjónarmið sem eru á ferðinni og hljóta að skipta máli þegar stefna er mótuð.

Í þessari tillögu er einmitt minnst á það að kanna hvernig staðið hefur verið að málum í nágrannalöndum okkar og þar er vitnað til Írlands. Ég segi bara að ólíkt hafast menn að vegna þess að írska ríkisstjórnin fór í það verkefni bara fyrir nokkrum árum að móta sér stefnu í varnar- og öryggismálum írska lýðveldisins sem ekki hafði verið gert frá stríðslokum og hún gerir það í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa eftir lok kalda stríðsins. Hvað gerir írska ríkisstjórnin? Hún safnar saman fulltrúum ýmissa aðila, gefur út svokallaða hvítbók í málinu. Hvítbók innifelur í sér ákveðna stefnumörkun og hún setur hana í umræðu í samfélaginu og kallar eftir athugasemdum, ábendingum, hugmyndum samtaka og einstaklinga og fékk inn alveg fjölmörg slík atriði sem voru síðan tekin til umfjöllunar áður en stefnan var síðan endanlega gefin út og mótuð. Þeir litu svo á með öðrum orðum að þrátt fyrir að þarna væri um að ræða öryggis- og varnarmál sem flestir telja afskaplega viðkvæm mál, meira að segja svo viðkvæm að ekki er hægt að ræða slík mál á opinberum vettvangi á Íslandi. — Það er ekki einu sinni hægt að ræða þau, eftir því sem mér skilst, í utanríkismálanefnd Alþingis og það litla sem þó er rætt þar er allt undir trúnaði. Þannig förum við að þessu meðan írska lýðveldið og ríkisstjórnin þar hefur þetta upp á borðinu og býður almenningi að umræðu um þessi mál vegna þess að þegar allt kemur til alls er þetta spurningin um öryggi og varnir þeirra einstaklinga sem innan vébanda þjóðríkisins búa og auðvitað hlýtur þeim að koma það nokkuð við hvernig að málum er staðið. En eins og ég segi þá er engin tilviljun að stjórnarflokkarnir blandi sér ekki í þessa umræðu vegna þess að það er einfaldlega það viðhorf uppi í ríkisstjórninni að það komi engum við það sem framkvæmdarvaldið er að sýsla með uppi í ráðuneytunum og það komi einfaldlega engum við hvernig þeir standi að samningum við aðrar þjóðir eins og við Bandaríkin út af varnarmálum og það komi engum við hvernig stefnan sé mótuð inni í alþjóðastofnunum þar sem Ísland eigi sína fulltrúa. Þetta er einfaldlega það sem maður má búa við á Alþingi Íslendinga en er auðvitað orðið löngu tímabært að breytist. Ég hlýt að kalla eftir því að stjórnarflokkarnir fari að taka sér tak og fari að tileinka sér nútímaleg vinnubrögð, lýðræðisleg vinnubrögð sem fela það í sér að haft sé víðtækt samráð við sem flesta í stefnumótun sem varðar landsmenn alla.

Lýðræði er ekki spurningin um það að kjósa bara á fjögurra ára fresti og láta þar við sitja. Lýðræði er að hafa samráð við fólk og eins og ég kom inn á í umræðunni í þinginu í gær, þar sem var verið að tala um rannsókn á valdi og lýðræði og hvernig þetta hefði flust til, þá haltrar ríkisvaldið og landstjórnin langt á eftir öllum öðrum í hugmyndum um lýðræði og lýðræðisleg vinnubrögð. Sveitarstjórnarstigið er komið mun lengra en nokkurn tíma landstjórnin í því að tileinka sér lýðræðisleg vinnubrögð og hafa samráð við fjölmarga aðila í stefnumótun. Það er út á það sem þessi tillaga gengur, að sem flestir komi að málinu vegna þess að stefna í öryggis- og varnarmálum er ekki einhver stefna sem breytist í grundvallaratriðum á fjögurra ára fresti við kosningar. Þetta er stefna sem þarf að standa og þarf að halda meðan forsendur eru óbreyttar í því umhverfi sem við lifum við og þarf þess vegna að standa og halda burt séð frá því hverjir veljast til forustu í landstjórninni á hverjum tíma. Þess vegna er enn ríkari ástæða en ella til þess að um þetta sé haft sem víðtækast samráð og sköpuð sem víðtækust sátt um málið í samfélaginu.

Við bjuggum við það hér um áratuga skeið að þjóðin var klofin í herðar niður í afstöðu sinni til varnar- og öryggismála. Það eru forsendur núna til að breyta þessu. Það eru allar forsendur til að breyta þessu og skapa þessa sátt. En það verða auðvitað þeir sem ætla að sitja á stjórnarbekknum að hafa einhverja forgöngu í því máli og verða a.m.k. tilbúnir til þess að hlusta á sjónarmið sem uppi eru í stjórnarandstöðunni.