132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Mat á fasteignum og álagningarstofn fasteignaskatts.

41. mál
[15:12]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um mat á fasteignum og um álagningarstofn fasteignaskatts. Kannski er rétt að vekja athygli á því eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerði rétt áðan, að það vantar líka þá ráðherra sem hér ættu að vera til að hlusta á mál mitt í þessum efnum og sömuleiðis þann nefndarformann sem um ræðir þannig að áhugaleysið gengur hér þvert yfir allt. Auðvitað dregur þetta úr þingmönnum löngun og gleði við að stunda sín störf þannig að ég skal taka undir það sem hv. þingmaður sagði í ræðu rétt áðan, að þetta áhugaleysi er með eindæmum. En það þýðir ekkert fyrir okkur að linna látum hér. Við skulum reyna að halda áfram að fá stjórnarliða að borðinu þannig að hér geti farið fram málefnalegar umræður, pólitísk átök, úr þessum ræðustóli þar sem þau eiga að fara fram þannig að við fáum á tilfinninguna að það sé verið að virða okkur einhvers sem höfum hér hluti til málanna að leggja í hina pólitísku umræðu.

Tillagan sem hér liggur fyrir var lögð fram á 131. löggjafarþingi. Hún komst ekki á dagskrá þá og er því flutt nú í raun í fyrsta sinn, þ.e. mælt fyrir henni í fyrsta skipti. Á síðasta þingi var 1. flutningsmaður hv. varaþingmaður minn Atli Gíslason og er hann höfundur tillögunnar. Raunar er hún flutt núna eilítið breytt því frá því að tillagan var flutt þá hefur Fasteignamat ríkisins tilkynnt um og kynnt endurmat á sumarbústöðum og sumarbústaðalóðum og þessi tillaga tekur mið af því nýja mati. Þess vegna er nokkuð aukið við bæði greinargerð og tillögutextann sjálfan. Tillögutextinn er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra sameiginlega að skipa nefnd til að gera tillögur um breytingar á reglum um ákvörðun matsverðs íbúðarhúsnæðis, sumarbústaða og sumarbústaðalóða, samkvæmt lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, og á reglum um álagningarstofn og álagningu fasteignaskatts samkvæmt lögum nr. 4 1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Nefndin leiti leiða til að finna nýjan álagningargrundvöll fasteignaskatts svo að álagning endurspegli kostnað sveitarfélaga af þjónustu við íbúðar- og sumarbústaðaeigendur og eigendur sumarbústaðalóða. Þannig verði tengsl álagningarstofns við skyndilegar breytingar á markaðsverði fasteigna rofin en í stað þessi taki álagning fasteignaskatts breytingum í takt við almennar verðlagshækkanir.

Nefndin skili tillögum sínum fyrir 1. september 2006.“

Eins og sjá má af tillögutextanum hefur, vegna gríðarlegra breytinga á markaðsverði fasteigna upp á síðkastið, fasteignaskatturinn hækkað gríðarlega. Það kemur afar misjafnlega niður á fólki. Það kemur illa niður á því fólki sem ekki er að hugleiða að selja íbúðir sínar, sem býr í þeim og greiðir fasteignaskatta. Verðlagshækkunin, hið háa markaðsverð fasteignarinnar, skilar sér ekki í vasa þeirra einstaklinga. Það er alveg ljóst að taka þarf til hendinni og skoða réttlætið í þessum málum.

Gerðar hafa verið umtalsverðar breytingar á lögum um skráningu og mat fasteigna. Fasteignamat ríkisins hefur staðið í endurmati á öllu íbúðarhúsnæði í landinu, nú síðast sumarbústöðum og sumarbústaðalóðum. Það má halda því fram að bæði ríkisstjórnin og sveitarstjórnir hafi gefið okkur vonir í þessum efnum, um að endurmatið mundi ekki leiða til hækkana á eignarskatti og fasteignaskatti en önnur hefur orðið raunin.

Við álagningu gjaldárið 2002 greiddu framteljendur sem áttu ekki aðrar eignir en skuldlausar tveggja til fjögurra herbergja íbúðir eignarskatt í fyrsta skipti. Fasteignaskattar hafa einnig hækkað vegna endurmatsins og enn frekar á grundvelli verulegra hækkana á markaðsverði íbúðarhúsnæðis, en skv. 27. gr. laga nr. 6/2001 skal matsverð fasteignar vera gangverð hennar umreiknað til staðgreiðslu. Það er sem sagt lögbundið.

Íbúðaverð hækkaði á öllu landinu, að Vestfjörðum undanskildum, milli áranna 2003 og 2004. Verð á íbúðarhúsnæði á Austurlandi hækkaði mest, um tæp 35%. Í Reykjavík nam hækkunin tæpum 14%, á Norðurlandi vestra 12,1% og á Norðurlandi eystra 10,6%. Í öðrum landshlutum nam hækkunin 9–10%, nema á Vestfjörðum, eins og áður segir, þar sem íbúðaverð lækkaði um 1,7%. Almennt má segja að hækkun matsverðs íbúðarhúsnæðis milli áranna 2003 og 2004 hafi numið að meðaltali rúmum 10% umfram almennar verðlagshækkanir samkvæmt vísitölu neysluverðs og hefur haft í för með sér sambærilega hækkun fasteignaskatta. Allt bendir til þess að matsverð fasteigna muni hækka verulega umfram almennt verðlag á þessu ári vegna mikillar eignaverðbólgu sem hófst á síðasta ári. Það sýna m.a. skýrslur Hagtíðinda Hagstofu Íslands frá 3. maí 2005 og vorskýrsla ASÍ 2005, en þar er að finna tölur um hækkun íbúðaverðs fram til apríl á þessu ári. Upplýsingar liggja fyrir um að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um rúm 38% á rúmu ári miðað við maí 2005. Þar af hafi sérbýli hækkað mun meira en fjölbýli, eða um 54% á móti 34%.

Í sumar lauk Fasteignamat ríkisins endurmati sumarbústaða og óbyggðra sumarbústaðalóða og tók hið nýja mat gildi 1. september sl. Breytingar á matinu eru mjög mismunandi eftir stærð og staðsetningu en meðallækkun á mati sumarhúsa samkvæmt því er 23,8%, segir hér. — Ég held að það hljóti að vera prentvilla, virðulegur forseti. Breytingarnar á matinu eru mismunandi en það mun hafa verið hækkun en ekki lækkun. Ég tel að hér sé prentvilla í greinargerðinni sem ég skal athuga og laga. Ég geri ráð fyrir að mat sumarbústaða hafi hækkað um 23,8% að meðaltali. Það eru jafnvel dæmi um 685% hækkun á lóðamati í Eyja- og Miklaholtshreppi. Um það má lesa nánar í fylgiskjali II með tillögunni, sem er grein úr Bændablaðinu frá 30. ágúst 2005. Þar er fjallað um mikla hækkun á mati sumarbústaða og óbyggðra sumarhúsalóða.

Fasteignaskattar eru í eðli sínu gjöld sem er ætlað að mæta kostnaði sveitarfélaga við að þjónusta fasteignaeigendur og eru lögð á eignir óháð tekjum. Útsvar er hins vegar lagt á sem hlutfall af tekjum, tekjuskattsstofni. Veruleg hækkun á markaðsverði íbúðarhúsnæðis síðustu mánuði og fyrirsjáanleg hækkun á þessu ári umfram almennar verðlagshækkanir ætti að mati flutningsmanna ekki að hafa áhrif á stofn til álagningar fasteignaskatts. Kostnaður sveitarfélaga af þjónustu við íbúðar- og sumarbústaðaeigendur og eigendur sumarbústaðalóða eykst ekki í réttu hlutfalli við hækkun á markaðsverði þessara fasteigna. Þessi eignaverðbólga hefur bitnað og mun bitna harðast á þeim sem lægstar hafa tekjurnar, svo sem eldri borgurum og einstæðum foreldrum. Þá má halda því fram með gildum rökum að viðmiðun fasteignamats við gangverð, markaðsverð, mismuni sveitarfélögum. Er þannig ljóst að sveitarfélög á Vestfjörðum standa afar höllum fæti og er fjárhagsstaða þeirra þó nógu slæm fyrir vegna fólksfækkunar. Er brýnt að setja nýjar reglur um álagningarstofn fasteignaskatts og styrkja tekjustofna sveitarfélaga með öðrum hætti en síhækkandi fasteignasköttum sem, eins og fyrr segir, eru lagðir á óháð tekjum. Í því skyni þarf að breyta álagningargrundvelli fasteignaskatts fyrir álagningu árið 2007 svo að íbúðar- og sumarbústaðaeigendur og eigendur sumarbústaðalóða þurfi ekki að sæta álögum umfram almennar verðlagshækkanir og að sveitarfélögum sé ekki mismunað.

Virðulegi forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur fullan skilning á þörfum sveitarfélaganna í landinu til að skjóta styrkari stoðum undir fjárhag sinn. Það sýnir málflutningur þingmanna flokksins á undangengnum þingum. Í því sambandi má t.d. nefna frumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sem þingflokkurinn flutti á síðasta löggjafarþingi og umræðu utan dagskrár um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, sem þingflokkurinn stóð fyrir 16. apríl 2004.

Í málflutningi þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa komið fram raunhæfar tillögur, að okkar mati, sem eru til þess fallnar að efla fjárhagsstöðu sveitarfélaganna til langs tíma. Þær tillögur taka heildstætt á vanda sveitarfélaganna og ganga út frá því að ríkisvaldið beri þar talsverða ábyrgð. Það er því mat flutningsmanna þessarar tillögu að tillögur fjármálaráðuneytisins um skyndihækkun fasteignamats í því skyni að efla fjárhag sveitarfélaganna séu vanhugsaðar og taki ekki á rótum vandans.

Með tillögu þessari, sem er á þskj. 41, höfum við birt þrjú fylgiskjöl, þrjár blaðagreinar. Í fyrsta lagi grein eftir Egil Ólafsson, blaðamann Morgunblaðsins, um fasteignamat, þ.e. um hvernig Fasteignamat ríkisins endurmat verðmæti sumarbústaða. Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. júlí í sumar. Sömuleiðis er hér á öðru fylgiskjali grein úr Bændablaðinu sem ég gat um fyrr í máli mínu og í þriðja lagi grein eftir Hörð Bergmann sem birtist í Morgunblaðinu 7. ágúst 2005 og hún heitir „Sumarhús sem tekjustofn sveitarfélaga.“

Allar þessar greinar gera á nokkuð ljósan hátt grein fyrir þeim vanda sem af þessari hækkun matsins hefur leitt. Við teljum þær þess vegna vera innlegg í umræðuna um þessa þingsályktunartillögu.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa orð mín fleiri en tel að um mikið hagsmunamál sé að ræða fyrir alla fasteignaeigendur. Ég treysti því að þetta mál fái yfirgripsmikla umfjöllun í nefnd og umsagna verði leitað sem víðast þannig að við megum, þegar líður á þingið, afgreiða tillöguna úr þingsölum með atkvæðagreiðslu.