132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

45. mál
[16:21]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að í þessu frumvarpi sé hreyft mjög mikilsverðu máli. Ég styð frumvarpið og þá tillögu sem það felur í sér um að Jafnréttisstofu verði fengin í hendur tæki sem nauðsynleg eru vegna verkefna hennar og athugunar hennar á einstökum málum þannig að hún geti krafið stofnanir, sveitarfélög, atvinnurekendur og félagasamtök um upplýsingar, hvort sem þær eru sértækar eða almennar, sem lúta að launamálum eða öðru ef grunur leikur á að verið sé að brjóta eða fara á svig við jafnréttislög. Ég held að hér sé ágætt mál á ferðinni og styð það.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þetta sé nú kannski ekki eina tækið sem dugi í þessum efnum. Þetta er eitt af mörgum og er ágætt í því safni sem þarf að vera til til þess að hægt sé að takast á við þann kynbundna launamun sem er í íslensku samfélagi eins og öðrum. Tækið sem hér er verið að leggja til tekur fyrst og fremst á hinum ólöglega launamun, þ.e. þeim launamun sem stangast beinlínis á við jafnréttislög þar sem verið er að mismuna konum og körlum í launum sem gegna sömu störfum eða sambærilegum störfum. Þetta tæki hér sem verið er að leggja til tekur hins vegar ekki á þeim launamun sem er í samfélaginu vegna þess að við erum með kynskiptan vinnumarkað þar sem störf eru einfaldlega metin misverðmæt eftir því hvort þau teljast vera hefðbundin kvennastörf eða hefðbundin karlastörf. Þetta tæki tekur ekki á þeim þætti málsins. Þetta tekur einvörðungu á þeim þætti málsins sem lýtur að lögbrotum, brotum á jafnréttislögum og að því leytinu til er þetta svipað og kannski með Samkeppnisstofnun sem getur farið inn í fyrirtæki og aflað upplýsinga og gagna og rannsakað ef ástæða er til þess að ætla að verið sé að brjóta samkeppnislög, að verið sé með einhverjum hætti að brjóta gegn þeirri samkeppni sem á að vera á markaði. En ég endurtek það að þetta tekur ekki á þeim þætti sem lýtur að hinum kynbundna launamun sem er vegna þess að vinnumarkaðurinn er kynskiptur og kvennastörf teljast einfaldlega ekki jafnverðmæt og hefðbundin karlastörf.

Þess vegna fannst mér aðeins miður hvernig 1. flutningsmaður þessa máls tók til orða áðan þegar hún sagði að þau í Vinstri grænum teldu sig einfaldlega komin fram yfir það að þurfa að skipa nefnd til þess að fjalla um launamun karla og kvenna og til þess að takast á við hann og þau væru hér með tæki í höndunum sem þau teldu öflugra í þeim efnum.

Ég held að við þurfum að ráðast til atlögu, ef svo má segja, við þennan launamun með mörgum og mismunandi tækjum. Við þurfum að gera það á mörgum og mismunandi vígstöðvum. Við eigum einfaldlega að nota öll þau tæki sem tiltæk eru og við eigum að styðja það frumkvæði sem fram kemur í þeim efnum hver svo sem á það frumkvæði. Ég held þess vegna að við séum ekki, því miður, komin fram yfir það að þurfa að skipa nefndir til þess að takast á við þessi mál eða beita einhverjum tækjum í stjórnsýslunni sem tiltæk eru til þess að takast á við launamuninn.

Það er hægt að takast á við launamuninn. Það er hægt að saxa á hann. Það er hægt að breyta þessu. Auðvitað er þetta ekkert náttúrulögmál. Þetta er bara mannanna verk. Ég vil nefna í því sambandi að þó að hjá Reykjavíkurborg sé enn þá launamunur óútskýrður milli kvenna og karla þá tókst samt sem áður að helminga þann óútskýrða launamun á árabilinu frá 1995–2001, eða á um það bil fimm ára tímabili. Það tókst að helminga þennan óútskýrða launamun sem var á launum karla og kvenna hjá Reykjavíkurborg einfaldlega vegna þess að pólitískur vilji var til þess, ekki bara hjá kjörnum borgarfulltrúum heldur í stjórnsýslu borgarinnar, til þess að takast á við það og þeim ráðum var beitt sem tiltæk eru og m.a. sett markmið í kjaraviðræðum um að vinna gegn þessum launamun. Það er ekki bara þannig að verkalýðshreyfingin eigi að hafa og setja sér markmið í kjaraviðræðum heldur á líka viðsemjandinn, hvort sem það eru atvinnurekendur á almennum markaði, ríkið eða sveitarfélögin, að setja sér samningsmarkmið. Þau samningsmarkmið geta m.a. lotið að því að draga úr þeim kynbundna launamun sem er vegna mismunandi verðmætamats á störfum kvenna og karla.

Það gerir auðvitað líka ákveðnar kröfur til verkalýðshreyfingarinnar um að hún setji þá þau störf í ákveðinn forgang í kjaraviðræðum, þ.e. ef það er líka vilji og markmið verkalýðshreyfingarinnar að takast á við þennan launamun, að hún setji þau störf þá í ákveðinn forgang í kjaraviðræðum við viðsemjendur sína. Ef menn eru sammála um þetta, sem manni heyrist a.m.k. á tyllidögum að allir séu sammála um, þá ættum við að ná einhverjum árangri og takast að saxa á launamuninn.

Ég vil líka nefna í því sambandi, af því að ég nefni hér tyllidaga og yfirlýsingar og fögur orð og fyrirheit á tyllidögum eins og á kvennafrídaginn frá fjölmörgum aðilum, þá skiptir auðvitað máli að það séu ekki bara orðin tóm heldur að gengið sé eftir efndum í þessum efnum. Ég verð að játa það, hafandi tekið þátt í kvennabaráttunni eða jafnréttisbaráttunni í meira en aldarfjórðung, að mér finnst ákveðinn tvískinnungur í því fólginn þegar aðilar koma fram, lýsa yfir stuðningi við þennan málstað kvenna og þessa baráttu fyrir launajafnrétti, hvetja konur jafnvel til þess að taka þátt í þessum degi, þessum atburðum, en gera svo kannski harla lítið til þess að breyta þeirri stöðu sem uppi er. Fjölmörg fyrirtæki auglýstu heilsíður í blöðunum þennan dag og hvöttu konur til þess að taka þátt í þessu og óskuðu konum til hamingju með daginn. Ég hefði kosið að sjá upplýsingar frá þessum fyrirtækjum um hvernig launamálum er háttað í þessum fyrirtækjum, hvernig launajafnrétti er á veg komið í þessum fyrirtækjum og hvað þessi fyrirtæki hyggjast gera til þess að breyta þeirri stöðu sem uppi er. Mér finnst alveg full ástæða til þess að gengið sé eftir því, ekki bara auðvitað hjá þeim fyrirtækjum sem auglýstu heldur almennt hjá okkar stóru fyrirtækjum sem eru hér öflug á markaði, skila miklum hagnaðartölum og umbuna sínum æðstu yfirmönnum vegna þess hversu miklum árangri þeir eru að ná í sínum rekstri. Þessi stóru fyrirtæki eiga að sýna að þau hafi metnað og vilja til þess að takast á við launamisréttið og setja sér skýr markmið og mælanleg um hvaða árangri þau ætla að ná í launajafnréttinu og birta síðan í ársskýrslum sínum og ársreikningum hvernig þeim er að takast upp í þeim efnum. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta breytist ekki eins og hendi sé veifað. En ef fyrirtækin settu sér svona mælanleg markmið og þau birtu það í ársreikningum sínum, væru einfaldlega með lykiltölur um bæði launajafnrétti og almennt jafnrétti í sínum fyrirtækjum þá held ég að við mundum ná meiri árangri en við höfum náð hingað til. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að umbuna fyrirtækjum sem þannig standa að málum. Við eigum að umbuna þannig fyrirtækjum bæði með viðskiptum og með umfjöllun um þau ef þau sýna vilja til þess að takast markvisst á við þessi mál.

Ég kem nú fyrst og fremst hér upp til þess að lýsa yfir stuðningi við málið en um leið bendi ég á að þetta er bara eitt tæki af mörgum sem við þurfum til þess að takast á við launamun kynjanna á vinnumarkaði. Reyndar vil ég bæta því hér við að ég tel, eins og þingmaðurinn sem talaði á undan mér, þingmaður Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, að taka þurfi á launaleyndinni kannski með víðtækari hætti en lagt er til hér. Ég mun beita mér fyrir því að flutt verði þingmál af hálfu Samfylkingarinnar um launaleyndina sem samið er um í fyrirtækjum við einstaklingana og felur í sér að einstaklingum er bannað að gera grein fyrir launum sínum, að segja frá launum sínum, þ.e. að flutt verði þingmál um að ekki sé heimilt að standa þannig að verki að réttur einstaklingsins sé takmarkaður til þess að segja hverjum sem hann segja vill frá launum sínum. Við þingmenn Samfylkingarinnar munum skoða það að flytja slíkt mál hér á næstunni sem getur tryggt rétt einstaklingsins til þess að segja frá launum sínum og koma í veg fyrir að hægt sé að setja slíkar hömlur á fólk. Ég held að það sé eitt tækið enn til þess að takast á við þetta launamisrétti.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta frumvarp. En eins og ég segi þá er þetta ágætt frumvarp og ágætt tæki í það safn sem þarf að vera til til þess að hægt sé að takast á við þessi mál.