132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

45. mál
[16:48]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessar viðbótargreiðslur hafa verið í ýmsu formi. Þær hafa verið í fastri yfirvinnu sem hafa í ríkari mæli, að því er talið er vera víst, gengið til karla en kvenna. Síðan vildi ríkið koma á því fyrirkomulagi 1996, með lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, að forstöðumenn hefðu á hendi vald til að greiða starfsmönnum. Það var 9. gr. laganna sem kvað á um þetta. Hún var sett á ís vegna þess að samtök launafólks vildu fá því framgengt að um þetta yrði samið á félagslegum grunni. Samkvæmt lögunum og samkvæmt þessari lagagrein átti forstöðumaður að sönnu að hafa reglur um þetta, hann átti að setja einhverjar almennar reglur en það gat hann gert á eigin forsendum. Af hálfu samtaka launafólks var krafa um að samið yrði um þetta á félagslegum grunni. Það var það sem ég vísaði í áðan að ekki náðist fram að ganga, hvorki gagnvart Reykjavíkurborg né ríkinu. Þetta er staðreynd. Sams konar kröfur voru settar fram gagnvart báðum þessum aðilum.

Síðan gerist það í samningunum núna, og það var BHM sem reið á vaðið að semja um framkvæmd þessarar reglu þannig að 9. gr. laga um réttindi og skyldur á að koma núna til framkvæmda. Við eigum eftir að sjá hvernig þetta mál þróast áfram en af hálfu samtaka launafólks er mjög ríkur vilji til þess að koma þessu inn í það horf að ekki sé verið að mismuna fólki, hvorki eftir kynferði né á einhverjum öðrum forsendum.