132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Stefna ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum.

[15:04]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Engin stefnubreyting hefur átt sér stað í þessum málum. Málefni hjúkrunarheimila eru til stöðugrar umræðu. Það er í gangi sérstakt átak, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, til að bæta þar úr, til að stytta biðlista. Ákveðið hefur verið að byggja hjúkrunarheimili í Sogamýrinni undir nafninu Markholt og einnig er til athugunar að gera samning um nýtt hjúkrunarheimili á svokallaðri Lýsislóð.

Það er hins vegar alveg ljóst að þessi mál verða ekki eingöngu leyst með hjúkrunarheimilum. Það er alveg nauðsynlegt að leysa þau í meira mæli með heimaþjónustu og með samstarfi sveitarfélaga og ríkisins. Það er mikil þörf á þessu sviði en engin stefnubreyting hefur orðið. Það verður haldið áfram við að vinna bug á biðlistum og bæta þessa þjónustu og engin ákvörðun hefur verið tekin um að mismuna fólki eftir efnahag. Þvert á móti er það stefna ríkisstjórnarinnar að fólki sé ekki mismunað eftir efnahag í þessu sambandi.