132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Skýrsla um aukin tækifæri í forustu atvinnulífsins.

[15:26]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Fyrir stuttu kom út skýrsla um aukin tækifæri í forustu atvinnulífsins, skýrsla svokallaðrar tækifærisnefndar viðskiptaráðherra um aukinn hlut kvenna í yfirstjórnum fyrirtækja, um margt ágæt skýrsla en um leið afar spör á brúklegar leiðbeiningar um hvernig skuli rétta kynjahallann í íslensku atvinnu- og viðskiptalífi.

Síðasta vetur spurði ég hæstv. viðskiptaráðherra um þessi mál úr þessum stóli. Þá sagði hún m.a. — hafði skipað nefndina sem nú hefur skilað skýrslunni og reyndar skrifað einhver bréf til forráðamanna stærstu fyrirtækja á Íslandi, — með leyfi forseta:

„Ég hlakka til að sjá árangurinn þegar þeirri fundalotu lýkur“ — og átti þá við aðalfundasyrpuna sem þá stóð yfir hjá íslenskum fyrirtækjum — „og ég trúi að árangur náist.“

Forseti. Árangurinn sem náðist í síðustu aðalfundasyrpu var sá að það fjölgaði um eina konu í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Það getur varla talist árangur sem hæstv. viðskiptaráðherra telur viðunandi.

Það er skoðun mín, frú forseti, að það sé á ábyrgð stjórnvalda að vera skrefi á undan í jafnréttisbaráttunni, bæði með góðu fordæmi og með því að setja leikreglur sem stuðla að heilbrigðara umhverfi í atvinnu- og viðskiptalífi, umhverfi þar sem menntun og hæfileikar karla og kvenna fá að njóta sín. Stærri hlutdeild kvenna í stjórnum fyrirtækja skilar ekki einvörðungu fjölbreyttara trompi á aðalfundinum, heldur fyrirtækjunum einnig betri skilningi á markaðnum, bættum stjórnarháttum og síðast en ekki síst betri afkomu, frú forseti. Það er margsannað mál.

Því langar mig að inna hæstv. viðskiptaráðherra eftir því til hvaða aðgerða hún ætli að grípa í ljósi þessara staðreynda og í ljósi þeirra tilmæla sem felast í skýrslunni.