132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Skýrsla um aukin tækifæri í forustu atvinnulífsins.

[15:28]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn til að vekja athygli á þessu máli. Það var einmitt í tengslum við jafnréttisáætlun sem mér sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra voru falin ákveðin málefni, og eitt af þeim var sem sagt að vinna að bættri stöðu kvenna í stjórnum fyrirtækja. Í framhaldi af því skipaði ég þá nefnd sem hv. þingmaður vitnaði til. Hún var undir forustu Þórs Sigfússonar, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs. Hún hefur lokið störfum og skilaði tillögum í sex liðum. Meðal annars er talað um að efla umræðu og þekkingu á málefninu, að birta reglulega upplýsingar um fjölda kvenna í stjórnum fyrirtækja, að konur þurfi að efla tengsl sín, að svokölluð leitarskilyrði séu víkkuð, að fyrirtæki þjálfi fleiri konur til ábyrgðar- og stjórnunarstarfa og svo að karlar í áhrifastöðu geri málið að sínu.

Hver eru svo næstu skref? Það eru ekki nema um tvær vikur síðan nefndin skilaði af sér og við erum að sjálfsögðu að fara yfir þessar tillögur og hvernig við getum nýtt þær til þess að bæta stöðuna. Til dæmis er ein hugmynd að taka þátt í verkefni sem miðar að því að tölfræði í þessum málaflokki liggi fyrir, sem sagt að grunnupplýsingar um fjölda æðstu kvenkynsstjórnenda í 100 stærstu fyrirtækjum liggi fyrir. Ég vil sjá hvaða árangur slíkt getur borið. Ég tel að umræðan sé mikilvæg og hún skiptir máli. Ég hef ekki aðhyllst þá hugsun að þetta verði leyst með lagasetningu. Ég tel að það sé ekki áhugavert og hef reyndar sýnt með viðhorfskönnun sem hefur verið gerð að 65,5% þjóðarinnar eru frekar eða mjög mikið á móti því. Ég vil sjá hvaða árangur slíkt getur borið.