132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:40]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til þess að umræðan um þetta málefni gæti kannski gengið betur fyrir sig þá langar mig til að bera fram spurningu til hæstv. ráðherra. Það er vegna þess að í 1. gr. frumvarpsins segir að markmið þessara laga sé skýrt eignarhald á vatni. Ég tel að þetta sé vafasamt orðaval ef hér á fyrst og fremst að vera um formbreytingu að ræða eins og segir í athugasemdum með frumvarpinu.

Þar er einnig sagt að í þessari nýju skilgreiningu á vatnsréttindum felist í raun meginatriði frumvarpsins en þó er sérstaklega áréttað að hér sé fyrst og fremst um formbreytingu að ræða. Meginatriði frumvarpsins er sem sagt formbreyting samkvæmt þeim skilningi sem fram kemur í athugasemdum með því. Ég bendi á að í athugasemdum frá laganefnd Lögmannafélags Íslands er sérstaklega fjallað um þetta orðalag og sagt að það sé til þess fallið að vekja vafa um markmið breytinganna og mun skýrara væri að segja afdráttarlaust að hér sé einungis um formbreytingu að ræða.

Ég vek athygli á því að við þessu hefur ekki verið brugðist. Það hefur svo sem ekki margt verið gert í breytingum á frumvarpinu þó að ýmsar athugasemdir hafi verið uppi og gríðarlega alvarlegar að mörgu leyti en ég tel að það sé full ástæða til að spyrja eftir þessu. Í leiðinni vil ég einnig spyrja um frumvarp sem átti að verða fylgifrumvarp frumvarpsins um vatnsvernd sem nú er til umfjöllunar eða var í öðru ráðuneyti, þ.e. umhverfisráðuneytinu. Hvernig stendur á því að ekki er gert ráð fyrir því að leggja það fram á Alþingi núna?