132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:29]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að stæða sé á til að fara yfir þessi mál í samhengi við þá umfjöllun sem hér á að fara fram í vetur, því að það er full ástæða til að menn lesi þetta allt saman. Hér hafa verið gerðar breytingar á lögum og komið fram ný lög um hin ýmsu efni sem voru í vatnalögunum áður og það er alveg full ástæða til að passa upp á að ekkert hafi fallið þar niður á milli. Sú hætta er einmitt fyrir hendi ef menn ætla að sleppa hluta af þessari lagasetningu út úr umfjölluninni sem nú er fram undan.

Ég ætla að vona að engin hætta sé á ferðum gagnvart rétti sveitarfélaga og fólksins í þéttbýlinu til þess að nýta sér vatn. Ég skal þó ekkert um það fullyrða því að það er augljóslega á ferðinni breyting á eignarrétti á vatni með því að skilgreina hann með öðrum hætti. Ekki er ljóst hvernig það mun breyta dómaframkvæmd í framtíðinni þegar til lengdar lætur. Og við vitum þá ekki hvort sveitarfélög muni með sama hætti geta sótt t.d. vatn út fyrir lögsagnarumdæmi sín eins og þau hafa getað gert fram að þessu.