132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Aðbúnaður og aðstæður aldraðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

[13:47]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda, Ágústi Ólafi Ágústssyni, fyrir að færa þetta málefni um aðbúnað aldraðra til utandagskrárumræðu í hv. Alþingi. Öldruðu fólki mun fjölga áfram á komandi árum og áratugum og þrátt fyrir að verið sér að fjölga vistrýmum og hjúkrunarrýmum verður ekki séð á svari forsætisráðherra frá því í gær og greinargerð heilbrigðis- og tryggingaráðherra þar í að þörfinni verði fullnægt á þessu kjörtímabili. Lengstir eru biðlistar í Reykjavík og þó að þar verði boðið upp á 100 ný hjúkrunarrými árið 2007, ef uppbyggingin gengur vel, verður þörfin vafalaust meiri. Það er hins vegar mjög neikvætt við þessa stöðu þar sem eftirspurn er meiri en framboð ef forgangur á vistunar- og hjúkrunarrýmum verður verðlagður eftir greiðslugetu aldraðra og sjúkra eða því hvað nánustu ættingjar vilja borga með viðkomandi.

Því er afar brýnt að fjölga vistunarúrræðum hratt á næstu árum svo að vaxandi mismunun aldraðra vegna fjárhags verði ekki viðvarandi. Mikil þörf er á að geta boðið öldruðum upp á einstaklingsvistun eða hjónum og sambúðarfólki upp á sérbýli og að því ber auðvitað að stefna. Vöntun á vistunarrýmum nú setur okkur takmörk í því að breyta nógu fljótt yfir í einbýlisvistun á vistheimilum. Sums staðar er þjónustan þrátt fyrir gott starfsfólk orðin óásættanleg og í fjöldasambýli. Sólvangur í Hafnarfirði er dæmi um erfiðar aðstæður og mikil þrengsli.

Betri heilsa og lengri lífaldur kallar á breytt viðhorf og lífsmunstur þeirra sem hætta störfum og verða mun lengur virkir á mörgum sviðum þjóðlífsins. Þessi staðreynd kallar á öðruvísi líf, starf og þess vegna menntun eða miðlun fróðleiks. Þetta er að mörgu leyti jákvæð breyting en kallar eftir nýju viðhorfi til eldra fólks sem vant er að ráða sér sjálft og vill hafa áhrif. Það er staðreynd.