132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[14:44]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tilefni af orðum hv. þingmanns vil ég fyrst láta þess getið að það er ekki rétt að ekki hafi verið gerð úttekt á núgildandi lögum. Það liggur fyrir skýrsla sem var kynnt mér í mars árið 2005 frá svokallaðri forsjárnefnd. Þetta er lokaskýrsla en áður hafði hún kynnt áfangaskýrslu. Síðan efndi ráðuneytið til málþings með öllum þeim sem láta sig þessi mál sérstaklega varða í tilefni af skýrslunni og fór yfir málið. Það hefur verið gerð rækileg úttekt á barnalögunum og þeim lögum sem um er að ræða hér. Á henni er þetta frumvarp byggt.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi þá hefur það atriði í sjálfu sér ekki verið skoðað sérstaklega. En það liggja vafalaust fyrir upplýsingar um þetta hvernig þessu er háttað. En meginreglan varðandi meðlagið er sú að meðlagið sé eign barnsins. Barnið er eignaréttarhafi meðlagsins og aðalatriðið fyrir barnið er að örugglega sé staðið þannig að málum að meðlagið sé greitt. Hvernig foreldrar skipta því síðan á milli sín, ef allt er í sátt og samlyndi, getur farið eftir innbyrðis samkomulagi. En meginreglan er sú að meðlagið er eign barnsins og þess vegna hefur t.d. ekki, í umgengnisdeilum og öðrum slíkum málum, verið lagt til að menn beiti einhverri refsingu sem byggist á því að afnema meðlagsgreiðslur því að þá væri gengið á hlut barnsins.