132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[16:23]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem fram kom í máli hv. þingmanns Össurar Skarphéðinssonar, um að óheppilegt væri að hafa algjörlega lokað fiskveiðikerfi og menn kæmust ekki að og ættu í raun engan möguleika á því, eins og núverandi kvótakerfi er úr garði gert.

Hv. þingmanni finnst talsvert í lagt hjá okkur í Frjálslynda flokknum með að leggja þetta til fyrir þá menn sem hafa til þess fullgilt atvinnuskírteini, sem þeir þurfa að endurnýja á fimm ára fresti, og hafa skírteini frá Slysavarnaskóla sjómanna, og þurfa einnig að endurnýja það á fimm ára fresti. Þeir hafa til þess atvinnuréttindi að umgangast vél um borð í skipi, eiga skip og þurfa að halda því haffæru með tilheyrandi kröfum og kostnaði. Þeir þurfa að kosta því til að í skipinu sé sjálfvirk tilkynningarskylda, sem kostar eitthvað á aðra milljón, þegar upp er staðið, en reyndar hef ég ekki kynnt mér það nýverið. Ég held að það sé ekki stórkostleg áhætta.

Við vitum ekki hver aflinn yrði á fyrsta ári né á öðru eða þriðja ári. Þess vegna sagði ég í ræðu minni að ef að mönnum fyndist bratt, að setja þetta inn með endurskoðunarákvæði til fimm ára, væri auðvitað hægt að hugsa sér þetta til styttri tíma.

En ég er sannfærður um að Íslendingar fari ekki allir að róa á bát, enda hafa ekki allir Íslendingar réttindi til þess. Ég hef því ekki verulegar áhyggjur af þessu en mundi gjarnan vilja sjá þetta verða að veruleika. (Forseti hringir.)