132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[16:30]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu gengur út frá því að lögin um stjórn fiskveiða verði áfram í gildi í framtíðinni. Hér er fyrst og fremst verið að leggja til að opnuð verði leið inn í það kerfi sem fyrir er og það er full ástæða til að draga athyglina að þessu lokaða kerfi og ræða það mál. Þetta er hugmynd um sóknarstýrt kerfi sem var að hluta til við lýði þar til menn hófu fyrir nokkrum árum að loka því og síðasta gatinu lokuðu þeir sem hér ráða ríkjum fyrir hálfu öðru ári. Afleiðingarnar af því eru ekki komnar fram að fullu en það er farið að sýna sig hverjar þær verða. Þær eru fólgnar í því að litlu sjávarútvegsþorpin, líklega þau fyrst og fremst, sjá á eftir veiðiheimildum, stórir aðilar safna þeim heimildum til sín og eftir stendur nýliðunarvandinn í greininni. Það fólk sem býr í sjávarþorpunum á ekki möguleika á því að stofna til nýrrar útgerðar og styrkja atvinnu sína á staðnum með því að nýta auðlindina sem gerði þó þann stað sem um er að ræða byggilegan á sínum tíma.

Þessi nýliðunarvandi er grafalvarlegur. Hann er vegna þess að eignarhaldsfyrirkomulagið á veiðiréttinum er með þeim hætti sem raun ber vitni. Það er ekki hægt að brosa að þessu, þetta er afskaplega alvarlegt mál og ég hefði fyrir mitt leyti viljað sjá að það yrði rætt í mikilli alvöru vegna þeirrar endurskoðunar á stjórnarskránni sem fram undan er. Það liggur fyrir að allir flokkar hér í sölum Alþingis hafa sagt að þeim finnist eðlilegt að þessi auðlind verði sett inn í stjórnarskrána. Ég hef sagt það áður og ætla að endurtaka það hér að það að setja auðlind inn í stjórnarskrá þýðir að íslensk stjórnvöld ætla að gegna eignarhaldinu fyrir hönd þjóðarinnar gagnvart viðkomandi auðlind. Undan því er ekki hægt að víkjast.

Það er alveg öruggt mál, að mínu viti, að menn munu ekki umgangast stjórnarskrána með sama hætti og menn hafa umgengist lögin um stjórn fiskveiða. Í 1. gr. þeirra laga stendur að um þjóðarauðlind sé að ræða en aðrar greinar gera það mögulegt að útgerðarmenn fari með þá auðlind eins og sína eign, kaupi og selji að sinni vild og aðrir komist ekki að nema að kaupa af þeim sem fyrir eru. Það má líka nefna lög um samningsveð, þar sem sett var inn í grein að ekki mætti veðsetja veiðiréttinn en í næstu grein á eftir var gengið þannig frá að samþykki lánardrottins þarf til þess að færa veiðiheimildir af skipi. Svona fara menn ekki með stjórnarskrána. Eignarhaldið á auðlindinni verður að vera í alvöru ef það er sett inn í stjórnarskrá.

Það er þess vegna sem stjórnmálaflokkarnir þurfa að fara yfir þetta mál í tengslum við endurskoðun stjórnarskrárinnar og komast að niðurstöðu sem færir menn að sátt um það með hvaða hætti jafnræði til þess að nýta auðlindina verði komið á.

Ég hef skilning á því að menn vilji draga athyglina að þessum vanda og ætla ekki að draga það frumvarp sem hér er sett fram niður með neinum hætti því að það er hugsað til þess að einhverjir eigi möguleika á því að hefja útgerð í landinu undir þeim reglum sem nú eru í gildi. Ég ætla að leyfa mér að halda í þá von að menn ætli virkilega að bera ábyrgð gagnvart stjórnarskránni og að það sé í alvöru sem menn vilji setja þessa þjóðarauðlind þar inn. Aðrar þjóðarauðlindir þarf auðvitað að umgangast með sama hætti, þ.e. að gegna eignarhaldinu fyrir hönd þjóðarinnar.

Síðan ætla ég að nefna aðeins þetta frumvarp og hvaða afleiðingar það hugsanlega gæti haft. Það mundi auðvitað hafa það í för með sér að þeir sem þess ættu kost mundu hefja útgerð af fullum krafti. Sennilega yrðu það nú helst þeir sem fyrir eru í útgerð sem mundu selja kvótann sinn, kaupa sér bát og fara að gera út eins og þeir hafa gert sumir hverjir jafnvel tvisvar, þrisvar sinnum á undanförnum árum. Síðan mundu líka aðrir koma þarna að sem mundu grípa tækifærið til þess að fara í útgerð og ekkert nema gott um það að segja. Þetta mundi lyfta upp fiskiþorpum sem liggja í rúst eftir það kerfi sem nú er í gangi og brúnin mundi örugglega lyftast á þeim sem búa úti á landsbyggðinni og eygja ekki von í því atvinnulífi sem þar er. Brúnin myndi lyftast á þeim sem eru jafnvel farnir að hugsa sér til hreyfings hingað á höfuðborgarsvæðið vegna þess að þeir hafa ekki trú á framtíð sinna byggðarlaga, en það er sá vandi sem þetta eignarhaldsfyrirkomulag hefur skapað.

Sú hugmynd sem hér er á ferðinni gæti líka hugsanlega gengið þó að menn væru búnir að breyta lögunum um stjórn fiskveiða með þeim hætti að jafnræði til að nýta auðlindina væri komið á — það jafnræði yrði hvort sem er að byggjast á því að verðleggja með einhverjum hætti þennan afnotarétt af auðlindinni ef aflamarkskerfið er haft í gildi. Það er ekki hægt að velja fólk til þess að nýta auðlindina öðruvísi en með einhverjum slíkum aðferðum ef aflamarkskerfi er í gildi því að það er ekki hægt að handvelja þá sem eiga að fá að nýta auðlindina. Auðvitað yrðu menn að sjá hvernig þeir hlutir mundu þróast í framtíðinni en það væri svo sem ekki miklu hætt þó að opnað væri á ný eitthvert gat inn í þetta kvótakerfi sem er núna orðið lokað.

Hér er talað um að tveir menn á jafnvel 30 brúttórúmlesta báti gætu róið með fjórar handfærarúllur. Nú er ég ekki alveg viss um hvort ég hef réttar upplýsingar í kollinum en ég er ekki viss um að það mundi duga að hafa tvo menn í áhöfn á 30 brúttórúmlesta skipi, en það getur nú hv. 1. flutningsmaður örugglega upplýst hér. Það gæti verið að aðrar kröfur um t.d. vélstjórn og annað slíkt hefðu það í för með sér að fleiri menn þyrftu að vera um borð í báti af þeirri stærð.

En ástæðurnar fyrir þessum vanda okkar við stjórn fiskveiða eru auðvitað upphaflega þær að menn ætluðu að stjórna fiskveiðum í því augnamiði að ná fram hámarksafrakstri af fiskstofnunum og það hefur nú ekki gengið eins og menn hefðu gjarnan viljað. Þorskstofninn var þar alltaf í fyrsta sæti og þar hefur mönnum gengið verst.

Við fengum fréttir af fundi sem Hafrannsóknastofnun hélt í tilefni af afmæli sínu og hvað var þar til umræðu? Það var auðvitað þetta stærsta skipbrot í fiskveiðistjórn sem við höfum nokkurn tíma horft upp á, það er það að mönnum hefur ekki tekist með neinum hætti að stjórna nýtingu þorskstofnsins á þann veg að hann geti staðið undir meiri veiðum að mati þeirrar stofnunar. Það er kannski ekki svo vitlaust að stofnunin skyldi velja akkúrat þetta málefni til þess að ræða á afmælinu sínu. Þó held ég að fæstir haldi nú upp á afmælið sitt með því að ræða það sem þeim hefur helst misheppnast, en það gerði Hafrannsóknastofnun. Niðurstaðan af afmælisfundinum var sem sagt sú að það þyrfti helst að ganga enn lengra í því að draga úr veiðum á þorski á næstu jafnvel tíu árum heldur en hefur verið gert fram að þessu.

Ég hef hlýtt á marga af forustumönnum Hafrannsóknastofnunar og fiskifræðinga ágæta á undanförnum árum segja okkur frá því hvernig þeir líti á þessi mál og ég hef alltaf sagt að við eigum að reyna að notfæra okkur þá bestu þekkingu sem er fyrir hendi á hverjum tíma og taka mark á því sem vísindamenn hafa fram að færa. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég er ekki sannfærður um að til staðar sé þekking sem eigi að túlka með þeim hætti sem Hafrannsóknastofnun gerir. Það var ekki fyrr en eftir 1990 að Hafrannsóknastofnun breytti afstöðu sinni til þess hve þorskstofninn þyrfti að vera stór til þess að tryggja nýliðun. Fram að þeim tíma ríkti sú skoðun í stofnuninni að ekki væri beint samband á milli stærðar hrygningarstofnsins og nýliðunarinnar. Síðan fóru menn að breyta þeirri túlkun og það varð að ráði að setja á svokallaða 25% reglu, sem allir í þessum sal þekkja, en á þeim tíma trúði Hafrannsóknastofnun því að það væri einn þorskstofn við landið. Og eftir því sem ég kemst næst mun nánast hafa verið gengið út frá því á þessari ráðstefnu í gær, að þar hafi verið talað um íslenska þorskstofninn og aflaregluna sem er í gildi — það hefur reyndar komið fram að menn hafa lagt til að sú regla yrði hert að því leyti til að í staðinn fyrir 25% veiði yrði farið niður í 22%.

Nú er túlkun Hafrannsóknastofnunar á því hvernig þorskstofninn er samansettur alveg gjörbreytt. Hann er samansettur úr ættkvíslum og jafnvel er um margar ættkvíslir að ræða. Hrygning að mati Hafrannsóknastofnunar hefur í tímans rás verið metin þannig, ég man eftir tölum þar sem var talað um að 40% af hrygningunni færi fram við suðvesturhornið á landinu og að seiðin ræki norður með vesturströnd landsins og þá færu stundum sum af þeim á Grænlandsmið, önnur færu norður fyrir land en tiltölulega lítil hrygning færi fram á öðrum stöðum.

Nú hafa upplýsingar Hafrannsóknastofnunar breyst hvað þetta varðar. Það segir okkur að á sama tíma og stofnunin telur að ofveiði hafi orðið á þorskstofninum í einu lagi þá hafa litlu stofnarnir, litlu ættkvíslirnar sem stofnunin hefur verið að átta sig á að væru til staðar, sumir hverjir verið að stækka og verða stærri hluti af hrygningunni við landið. Ég er ekki með hér hjá mér nýjustu tölur Hafrannsóknastofnunar hvað þetta varðar en ég man eftir að hafa séð tölur sem bentu til þess að þá hefði hrygningin breyst þannig að í staðinn fyrir að 40% af hrygningunni yrði við suðvesturhornið þá væri það komið niður í 25% og önnur svæði skiluðu því meiri hrygningu. Þetta segir mér að þessi 25% regla, sem er núna í gildi, getur ekki verið mjög nákvæm vísindi. Hafi þurft 25% af einum þorskstofni til þess að tryggja nýliðun gengur ekki upp að einhverjir litlir partar eða ættkvíslir í þorskinum geti verið að stækka en stóri parturinn, þar sem 40 prósentin komu áður frá, að minnka. Er það líklegt?

Þess vegna segi ég að mér finnst að sterkari rök þurfi til að halda því fram að mikil samsvörun sé milli nýliðunar og stærðar hrygningarstofns. Ég hef spurt vísindamenn um þetta atriði og eina svarið sem ég fékk þar var að fiskurinn blandaðist saman á miðunum og þess vegna væri hægt að halda sig við stjórn sem miðaði við vissa heildarprósentu. Önnur leið væri ekki til staðar nema þá sú að stjórna veiðiálagi svæðisbundið, sem væri það æskilega.

Ég get auðvitað tekið undir að það hlýtur að vera spurningin, ef menn trúa því að passa þurfi veiðistofnana með þeim hætti að skilja eftir einhvern tiltekinn hluta stofnsins til að hann geti hrygnt, að menn þurfi einmitt að beita svæðisbundnum stýringum. Ekki stendur til að gera það á Íslandsmiðum eða ég veit ekki til þess. Þá hljóta menn að verða að svara þeirri spurningu hvort það sé líklegt, ef þorskstofninn skiptist í svona ættkvíslir eins og stofnunin er núna farin að halda fram að hann geri, að það dugi þá að vera með þetta fyrirkomulag að veiða 22% til að tryggja að allar ættkvíslirnar haldi sínu. Ég trúi því ekki að veiðiálagið jafnist svo út á miðunum að menn gangi þá ekki gríðarlega nærri litlum ættkvíslum ef svona er að málum staðið.

Niðurstaða mín af þessum vangaveltum er þess vegna sú að ég er á þeirri skoðun sem Hafrannsóknastofnun var fyrir 1990, að ekki sé beint samband milli stærðar hrygningarstofnsins og nýliðunar. Ég held að menn þurfi að leita að öðrum skýringum, sem reyndar hafa líka komið fram frá hendi stofnunarinnar, t.d. þeirri skýringu að stóri fiskurinn sé gríðarlega mikilvægur í hrygningunni. Mér finnst að það séu ákveðnar vísbendingar um að svo geti verið, sem hv. 1. flutningsmaður nefndi reyndar áðan.

Árið 1966, samkvæmt því sem hv. þingmaður sagði áðan, veiddu menn gríðarlega stóra þorska í nætur við suðurströndina. Það hefur sennilega ekki verið tilviljun að þetta var við suðurströndina þar sem aðalhrygningin fór fram á þeim tíma og hefur farið fram til þessa þó að hún hafi minnkað. En þarna voru torfur af gríðarlega stórum fiskum sem ekki veiddust í nein veiðarfæri, en menn fundu þetta á mælitækjum sínum og fóru svo að veiða þennan fisk í nætur og hann var veiddur upp.

Hvað sagði Hafrannsóknastofnun þegar þær veiðar stóðu yfir? Þetta er allt í lagi, þetta er gamall fiskur sem er kominn að fótum fram og fer að drepast, um að gera að veiða hann. Og það var gert, hann var kláraður. Þetta er 1966, 1967 og 1968, þetta tók ekki mörg ár. Þetta voru nokkuð hundruð tonn sem voru veidd af þessum stóra fiski. Menn voru að fá fullfermi af þeim fiski á umræddum tíma.

Svo líður og bíður og þegar fer að ganga á níunda áratuginn fóru menn að stækka riðilinn í þorskanetum. Sumir af þeim sem töluðu á bryggjunum þá höfðu af þessu miklar áhyggjur að nú væri sama sagan að fara að gerast og gerðist í Vestmannaeyjum, verið væri að veiða upp stóra fiskinn og það væri hættulegt. Svörin voru þau að þetta væri svo lítið magn að þetta skipti engu máli. En það er ekki fyrr en fyrir um þrem, fjórum árum sem stofnunin leggur til að breytt verði út af þessu með riðilinn. Ég held að það gæti verið hluti af þeirri skýringu sem verið er að leita eftir (Forseti hringir.) að búið sé að drepa niður besta hrygningarfiskinn við landið.