132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[16:51]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held ég hafi heyrt rétt að í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar hafi komið fram í upphafi ræðu hans að í þessu litla frumvarpi, sem hér er verið að mæla fyrir á hinu háa Alþingi, fælist eins konar staðfesting á núgildandi fiskveiðilöggjöf eða tilvist hennar. Ég kom hér upp til að lýsa því yfir að ég er ekki alveg sammála þeirri túlkun. Þó að þetta sé nýtt bráðabirgðaákvæði við fiskveiðilöggjöfina eins og hún er í dag þarf ekki að felast í því nein viðurkenning á því að sú fiskveiðilöggjöf sem er í dag sé komin til vera um langan aldur eða allan aldur, langt í frá.

Það sem fyrir okkur flutningsmönnum frumvarpsins vakir er fyrst og fremst að reyna að rétta hönd til þeirra sem búa í sjávarplássum allt í kringum landið. Við teljum að þetta fólk eigi ákveðinn rétt til auðlindarinnar, nýtingarrétt. Það sem fyrir okkur vakir er að rétta ungum mönnum hjálparhönd til að komast inn í þessa grein, til að aðstoða menn sem hafa stundað sjósókn, sjómenn sem hafa aflað sér réttinda til að geta fengið að nýta sín eigin heimamið og jafnvel líka að rétta mönnum hjálparhönd sem eru komnir á efri ár og vilja halda áfram að stunda sjóinn á grundvelli blöndu af frístundaveiðum og atvinnuveiðum ef út í það er farið. Það er þetta sem við erum að hugsa með þessu litla frumvarpi okkar. En við erum ekki að setja neinn stimpil, gúmmístimpil undir það að núverandi löggjöf eins og hún er, sem við teljum að sé að mörgu leyti meingölluð og höfum oft minnst á hér í ræðustól, sé komin til að vera um allan aldur.