132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[16:54]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að ég hafi þá misskilið á einhvern hátt upphafsorð hv. þingmanns, því að eins og ég sagði áðan í máli mínu erum við fyrst og fremst að reyna að gera eitthvað sem hægt er að gera með skjótum hætti til að rétta hag fólksins sem býr í sjávarbyggðunum allt í kringum landið. Ég held að það leynist engum sem fer um landið í dag og kemur í þessi sjávarpláss mjög víða að þar hafa mál færst mjög til verri vegar á skömmum tíma. Ég get til að mynda sagt með sjálfan mig, ég fór víða um land í sumar og ég verð að segja að mér var verulega illa brugðið að koma á þessa staði og sjá hvernig atvinnulífið hefur í raun dofnað og drabbast niður og heyra af fólki sem er að flytja á brott og hvernig ástandið er á víða úti á landi. Ég held að með einhverjum svona hætti, breytingum á fiskveiðistjórnarlögunum til að mynda, væri hægt að rétta þessum byggðum ákveðna hjálparhönd, t.d. stöðum á Vestfjörðum sem eru margir mjög háðir fiskveiðum og háðir því að geta sótt á sín heimamið. Við getum líka nefnt pláss á Norðurlandi, staði eins og Siglufjörð, Dalvík, Ólafsfjörð, Húsavík, Raufarhöfn, Kópasker, Þórshöfn og Vopnafjörð. Það er í rauninni hægt, virðulegi forseti, að fara nánast allt í kringum landið og nefna þessa staði.

Ég er sannfærður um að ef þetta mundi ganga í gegn værum við í raun og veru ekki að ógna neinum fiskstofnum, við værum ekki að stunda neina ofveiði. Ég held að þetta mundi takmarkast af sjálfu sér bæði af veðri og vindum en líka af þeim skilyrðum sem við setjum í frumvarpinu. Gerðar eru mjög ákveðnar kröfur um hæfni manna, menn þurfa að fara út í ákveðnar fjárfestingar til að geta gert þetta og ég held að það eitt og sér mundi á vissan hátt vera nægileg bremsa til að sjá til þess að það færu engir út í þetta með þessum hætti nema þeir sem væru í þessu af einhverri alvöru og byggju yfir dugnaði og þori til að fara út í þetta. Og það væri hið besta mál.