132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[16:58]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um stjórn fiskveiða og eins og gengur getur umræðan farið út um víðan völl enda er um umfangsmikið mál að ræða, stjórn fiskveiða í eðli sínu.

Hv. þingmaður kom í máli sínu inn á þá minnkun sem hefur orðið á þorskafla þjóðarinnar og það er rétt. Að sjálfsögðu deili ég áhyggjum með hv. þingmanni af þeirri þróun og það þarf að vernda þorskinn.

Hins vegar getum við ekki litið fram hjá því að í dag er núverandi kerfi þannig uppbyggt að það hámarkar verðmæti sjávarafurða og í rauninni er fiskvinnsla hringinn í kringum landið orðin hátækniiðnaður. Við getum nefnt sem dæmi Samherja á Dalvík, það glæsilega fiskvinnsluhús sem fékk verðlaun á dögunum. Það er hreint stórkostlegt að fara um það hús og sjá þá hátækni sem þar á sér stað og ég fullyrði að virðisauki sjávarafurða í dag er miklu, miklu meiri í núverandi kerfi en á níunda áratugnum.

Í upphafi níunda áratugarins var nóg veiði, eins og hv. þingmaður man. En ég man ekki betur en að nær allur flotinn á Austfjörðum hafi nú siglt í land á sínum tíma. Þó var nóg hægt að veiða. En umhverfi og rekstrarskilyrði sjávarútvegsins á sínum tíma var mjög erfitt.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flutti ræðu á þingi LÍÚ á dögunum og boðaði þar sögulegar sættir Samfylkingarinnar við útvegsmenn. Ég hef ekki orðið var við annað en að hv. þm. Jóhann Ársælsson hafi verið hallur, svo ég taki nú ekki dýpra í árinni, undir fyrningarleiðina, og hann hefur haldið hér margar ræður um að stefna beri að fyrningarleiðinni í sjávarútvegsstefnunni. Hefur hv. þingmaður skipt um skoðun í þeim efnum?