132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[17:02]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagnaði ummælum hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á þingi LÍÚ á dögunum og taldi mér trú um að hv. þingmaður, formaður Samfylkingarinnar, hefði þar talað fyrir hönd flokks síns. En því miður virðist Samfylkingin ekki standa óskoruð á bak við formann sinn í þessu máli. Sá formaður hefur haft uppi orð um samráð og því spyr ég hv. þingmann hvort þetta mál hafi verið tekið upp innan þingflokks Samfylkingarinnar. Það er mjög mikilvægt, eins og ég hef áður sagt í umræðum um svipuð mál, að Samfylkingin, sem stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, hafi skýra stefnu í málinu.

Ég fullyrði að fyrningarleiðin er engin sáttaleið eins og hv. þingmaður hélt fram áðan og lagði til í aðdraganda síðustu kosninga. Við höfum, að við teljum, náð ákveðinni sátt. Eignarhaldið á fiskveiðiauðlindinni er þjóðarinnar. Útgerðin hefur afnotarétt af þeirri auðlind og greiðir auðlindagjald af því, svokallað veiðigjald. Það má deila um hvort það sé sanngjarnt í eðli sínu, að undirstöðuatvinnugrein landsbyggðarinnar borgi sérstakan skatt. En ég hef trú á að þetta sé fyrsta skrefið í þá átt að við innleiðum yfir höfuð auðlindagjald í íslensku þjóðfélagi. Mér finnst það spennandi framtíðarsýn, að þeir aðilar sem nýta sér auðlindir þjóðarinnar greiði fyrir það sanngjarnt gjald.

Hæstv. forseti. Ég tel ljóst að stefna Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum er enn á reiki og ekki ljóst hvað hún ætlar sér í þeim efnum. Því miður tók ég trúanleg þau orð hv. formanns Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, að Samfylkingin vildi sátt við útgerðarmenn. En það er alveg ljóst af öllum umræðum að fyrningarleiðin er engin sáttaleið í íslenskri sjávarútvegspólitík.