132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[17:07]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér höfum við mjög gott frumvarp sem ég á von á að muni lyfta upp landsbyggðinni og verða atvinnulífi þar til mikils framdráttar. Hér er um frelsisfrumvarp að ræða, frelsisfrumvarp fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni. Við beinum sjónum okkar að því að lyfta þessu oki, kvótakerfinu, af atvinnulífinu á landsbyggðinni.

Ég varð satt að segja svolítið hissa á að heyra að hv. þm. Birkir Jón Jónsson skyldi ekki taka jákvæðar í þetta frumvarp. Það gæti örugglega lyft upp atvinnulífinu í heimabæ hans, Siglufirði. Siglufjörður er einn af þeim bæjum sem á mjög erfitt uppdráttar vegna þess að búið er að loka atvinnugreinina af.

Það kom fram í ræðu framsóknarmannsins að hann hafði áhyggjur af auðlindagjaldinu. En ég ætla að benda hv. þingmanni og öðrum fylgjendum núverandi kerfis á að auðlindagjaldið er smávægilegt brot af því sem þeir sem eru undir í greininni, leiguliðarnir, greiða. Þeir greiða hátt í 9 þús. millj. kr. fyrir aðgang að auðlindinni. En hv. þm. Birkir Jón Jónsson og aðrir tala um þetta auðlindagjald eins og það sé aðalatriði.

Nei, aðalatriðið í byggðastefnu, til að lyfta atvinnugreininni upp úr þeirri deyfð sem hún er í, er einmitt að auka frelsið. Auðvitað á að auka frelsið. Ég á von á því að sjálfstæðismenn, ef þeir meina eitthvað með því að þeir styðji frelsið, taki undir þetta. Ég á ekki von á öðru. En því miður virðist hæstv. sjávarútvegsráðherra vera úti á þekju í umræðunni um sjávarútvegsmál. Hann hefur sífellt gagnrýnt sjávarútvegsmálin í gengum tíðina, í áratugi, síðan ég fór að fylgjast með. Ég verð að segja að ég var spenntur fyrir því þegar hann tók við þessu nýja starfi. Þá bjóst ég við einhverjum breytingum. Nei, þá var annað upp á teningnum, þegar hann tók við starfinu. Þar með á engu að breyta, akkúrat engu, ekki einu sinni þáttum er varða heimabyggð hans, Vestfirði. Þegar ég spyr hann, hér í umræðunni, um hvað hafi orðið um aflaheimildir sem virðast renna í stríðum straumum í burtu af Vestfjörðum þá segir hann að það sé ekki rétt og reynir að snúa út úr með alls konar kjaftagangi.

Staðreyndirnar eru þær, og má lesa um það í Morgunblaðinu, að 1.800 þorskígildistonn hafa farið frá Vestfjörðum. Svo kemur hæstv. sjávarútvegsráðherra og heldur því fram að aflaheimildir þar hafi aukist. Það er bara kjaftæði. Mér finnst alvarlegt, frú forseti, að menn skuli koma í þennan ræðustól, bera þvílíkt fleipur á borð og ætlast til að tekið sé mark á þeim.

Menn hafa einnig gagnrýnt vísindastefnu sem ekki hefur gengið upp. Þorskaflinn nú er helmingi minni en þegar farið var að fylgja ráðgjöf Hafró nánast í einu og öllu, a.m.k. síðustu 15 árin. Aflinn er helmingi minni. Svo leyfa menn sér að gagnrýna það, m.a. ég og ýmsir aðrir, hvernig sú ágæta stofnun, Hafrannsóknastofnun, heldur upp á afmælið sitt. Það hefði hún getað gert með því að ræða þetta vandamál, að það er enginn afrakstur af starfinu. En í staðinn fyrir að taka þá umræðu og hleypa öllum sjónarmiðum að þá er reynt að halda öllum gagnrýnisröddum fyrir utan. Auðvitað er þetta ámælisvert.

Ég lærði það einhvern tíma í háskóla að vísindin gengju út á gagnrýna hugsun og menn ættu að fagna allri gagnrýni og leita þá að réttri leið og finna lausnir. Hins vegar virðist annað upp á teningnum, bæði hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra og hjá Hafrannsóknastofnun. Haldin er ráðstefna bara fyrir já-menn og þeim sem hafa gagnrýnt það að stofnunin hafi engu skilað, t.d. mér og öðrum, er haldið fyrir utan.

Og ef marka má nýjasta pistil hæstv. sjávarútvegsráðherra á heimasíðu hans, þá gagnrýnir hann ekki aðeins okkur sem höfum efast um þessa svokölluðu ráðstefnu, sem er eiginlega hálfgerð áróðursráðstefna, heldur gagnrýnir hann fjölmiðla sem fjalla um að menn séu ekki á eitt sáttir um framsetninguna á hlutunum. Hann gagnrýnir að fjallað sé um gagnrýni á störf ráðherra. Ég veit eiginlega ekki í hvernig landi hæstv. ráðherra vill búa. Það mætti halda að menn vildu hafa fyrirkomulagið álíka og var í Sovétríkjunum. Það er komin vísindastofnun með pólitískri stjórn sem flytur rétttrúnað og hefur síðan hagsmunaaðila til að blessa vitleysuna.

Það er alvarlegt og einnig er sérkennilegt að hæstv. ráðherra, sem kemur af landsbyggðinni, af Vestfjörðunum sem hafa farið mjög halloka í þessu kerfi, skuli ekki skilja það þegar við í Frjálslynda flokknum leggjum fram frumvarp um að auka frelsið, t.d. á Bíldudal og Bolungarvík. Þá mætir hæstv. ráðherra ekki til þess að svara fyrir gjörðir sínar og stefnu. Mér finnst það mjög sérstakt, ég verð að segja það.

Stefnan sem nú er rekin, kvótastefnan, sú vitleysisstefna, kristallast mjög vel í Arnarfirði. Þar eru ekki aflaheimildir, þær hafa verið seldar eitthvert annað. En fiskurinn fer hins vegar ekkert endilega þótt aflaheimildirnar fari. Hvernig ætla menn að ráða við það? Jú, hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur samþykkt að gefa þorsknum að éta, það er hans eina ráð. Menn fara með loðnu í Arnarfjörðinn til að þorskurinn fái nóg æti í staðinn fyrir að leyfa einfaldlega Vestfirðingum að sækja sjóinn. Nei, kerfið er svo heilagt að hæstv. sjávarútvegsráðherra vill frekar gefa þorskinum loðnu að éta. Hann kaupir hana dýrum dómum fyrir fé skattborgaranna. Ég spyr bara landsmenn: Finnst þeim þetta ásættanlegt, að eyða háum fjármunum í að gefa fiskinum að éta í staðinn fyrir að leyfa nú fólki fyrir vestan, sem hefur ekki vinnu, að sækja sjóinn? Ég verð að segja að ég botna ekkert í þessu. (Gripið fram í.)

Að mörgu er að hyggja varðandi sjávarútvegsstefnuna. Ég tel að þessu verði að breyta og við verðum að líta til þess að þeir sem vilja landsbyggðinni vel hugsi sinn gang og forðist í lengstu lög að veita Framsóknarflokknum brautargengi (Gripið fram í.) vegna þess að flokkurinn hefur haldið mjög stíft í kerfi og gætt þess með ráðum og dáð, þrátt fyrir að hinar dreifðu byggðir blæði fyrir það. Mér finnst það vera mjög alvarlegt. Við sjáum þetta víða.

Nú er svo komið að eigendur sjávarjarða á Íslandi, sem ættu ef allt væri með felldu að líta á Framsóknarflokkinn sem málsvara sinn, senda frá sér erindi um mannréttindabrot stjórnvalda. Þeir finna fyrir mannréttindabrotum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Þeir telja að flokkarnir hafi svipt þá réttindum sínum og gefi þeim ekki kost á að nýta eignarrétt sinn. Nú er svo komið að þetta erindi er komið til Evrópuráðsins, mannréttindanefndar Evrópuráðsins. Mér finnst það mjög alvarlega staða fyrir Framsóknarflokkinn að eigendur jarða á landinu telji að mannréttindi séu brotin á þeim. Maður veltir fyrir sér fyrir hvað flokkurinn stendur.

Í ræðustól kom ungur þingmaður, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, og ræddi um þetta kerfi sem hann vildi halda mjög í þótt heimbær hans hafi farið mjög illa út úr þessu kerfi, þ.e. Siglufjörður. Enginn hefur mælt því í mót. En þannig er það, því miður, að heimabær hans hefur farið mjög illa út úr kerfinu.

Sem dæmi má nefna að Síldarminjasafnið á Siglufirði sótti um það að fá að sækja örfáar síldar út í sjó, sem óðu þar inn fjörðinn. En Framsóknarflokkurinn, með hv. þingmann í broddi fylkingar, réttlætti það að ekki mætti raska kerfinu og því mættu forráðamenn Síldarminjasafnsins ekki bjarga sér með nokkrar síldar. Þetta er með öllu ólíðandi.

Það sem er einnig afdrifaríkt fyrir þjóðarhaginn er að það verður engin nýliðun í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Nýliðun skiptir verulegu máli fyrir atvinnuvegina. Eflaust eru vel rekin fyrirtæki hér og þar en forsendan fyrir því að áfram verði til vel rekin fyrirtæki er að nýir aðilar komi inn sem veiti þeim sem fyrir eru aðhald.

Það getur varla verið framtíðarsýnin, að ætlast til að atvinnugreinin verði lokuð. Það er einfaldlega svo að nýir aðilar bæði veita þeim sem fyrir eru aðhald og þeir koma með nýjar hugmyndir inn í atvinnugreinina þannig að atvinnugreinarnar nái að þróast áfram. Þeir sem eru fyrir reyna að bregðast við. Þetta höfum við séð í fiskiðnaðinum. Þeir sem fóru í flugfiskinn fyrst voru einmitt nýir í atvinnugreininni. Síðan fylgdu stóru fyrirtækin á eftir. Við verðum einfaldlega að tryggja að sprotarnir í atvinnurekstrinum komist af.

Ég er sannfærður um að þetta frumvarp yrði til þess að lyfta byggðarlögunum við sjávarsíðuna upp. Þetta litla frumvarp, um að veita atvinnufrelsi, er mun öflugra tæki en nokkurn tíma vaxtarsamningarnir sem eru prentaðir í stríðum straumum fyrir hnignandi byggðir um landið allt. Ég er á því að vaxtarsamningur, t.d. fyrir Norðvesturland, sé í sjálfu sér ágætur. En fyrir Hofsós mundi þetta frumvarp, að veita fólkinu á Hofsósi kost á að sækja sjóinn á ný, vera miklu meira virði en að senda þeim skýrslu með einhverjum klösum og frösum sem eru nær óskiljanlegir.

Menn verða að fá að bjarga sér. Ég hefði miklu frekar viljað að hæstv. byggðamálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, kæmi og ræddi þetta frumvarp í stað þess að koma alltaf með byggðaáætlanir, vaxtarsamninga og annað slíkt. Þetta er margfalt verðmeira fyrir byggðir landsins, þetta litla frumvarp, að veita fólkinu atvinnufrelsi á ný. Nei, það fær í staðinn vaxtarsamninga og ég veit ekki hvað frá því ráðuneyti, sem skila í raun ekki miklu. Ég ætla að rekja það hér í stuttu máli.

Nýlega var gerður vaxtarsamningur fyrir Vestfirði. Fyrst áttu að fylgja honum einhverjir örfáir tugir milljóna á þremur eða fjórum árum, til 2007 minnir mig að það sé. En síðan, eftir örlitla gagnrýni, m.a. frá þeim sem hér talar, var sú upphæð hækkuð lítillega, upp í 70 millj. kr. En hvað gerðist á síðasta ári, frú forseti? Þá hækkaði sama ríkisstjórn og sendi þennan litprentaða bækling vestur á firði, með 70 millj. kr. og frösum um vaxtarklasa og ég veit ekki hvað, rafmagnsverð til atvinnufyrirtækja á Vestfjörðum. Og ekki nóg með það heldur færði hún minnstu trillur landsins inn í kvótakerfið. Eins og áður segir þá streymdu aflaheimildir í stríðum straumum af Vestfjörðum. En með þessu frumvarpi munum við veita atvinnufrelsi á ný og ég er viss um að menn munu sækja sjóinn í enn meiri mæli en áður á Vestfjörðum. En með þessari aðgerð stjórnvalda fóru aflaverðmæti sem svarar til 250 millj. kr. á einu ári í lönduðum afla. Þessi aðgerð olli meira tjóni. Það hefur komið upp úr dúrnum að landaður afli er 4 þús. tonnum minni á síðasta fiskveiðiári en árið þar á undan. Það segir okkur að ... (GAK: Landaður þorskafli.) landaður þorskafli, rétt. Það segir okkur að tekjur eða velta útgerða á Vestfjörðum er 500 millj. kr. minni, bara á síðasta ári.

Hæstv. byggðamálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, sendir hins vegar litprentaðan bækling með einhverjum frösum um 70 millj. kr. stuðning á mörgum árum, sem er í sjálfu sér allt í lagi, en með fylgir hærri rafmagnsreikningur. Hann er látinn fylgja með. Ég veit ekki hvort það var í sama umslaginu en mér finnst þetta mjög mikil ósvífni. Ég vona að fólk á Vestfjörðum og víða um landið, sem fær um þessar mundir hærri rafmagnsreikninga en einnig einhverja vaxtarsamninga og frasa með, átti sig á þessu. Það er hallærislegt að styðja svona flokka. Það er hallærislegt að vera úti á landi og vera í Sjálfstæðisflokknum, með eitthvert fálkamerki á sér, og vera eins og hálfgerður fálki að styðja aðgerðir sem stríða gegn hagsmunum þeirra. Ég ætla að vona það að menn fari að ná áttum og sjái að þetta er ekki mikils virði, að horfa upp á stöðuga fólksfækkun og vera í eða styðja flokka sem grafa undan manni. Það er náttúrlega ekki gott.

En við höfum hér gefið stjórnarliðinu kost á að samþykkja frumvarp, lítið frumvarp um að veita fólkinu á landsbyggðinni atvinnufrelsi á ný. Ég vona sannarlega að aðrir stjórnarliðar, sem ég vænti að taki til máls, sýni þessu frumvarpi meiri skilning en hv. þingmaður framsóknarmanna hefur gert í umræðunni, hv. þm. Birkir Jón Jónsson. Hann varði ekki tíma sínum í að ræða þetta frumvarp. Hann vildi ræða um stefnu einhverra flokka. Þetta frumvarp skiptir verulegu máli. Það skiptir mjög miklu máli, meira máli en margt annað sem rætt hefur verið um í byggðamálum. Ég vona sannarlega að menn fari að átta sig á því og styðji þetta frelsisfrumvarp frá Frjálslynda flokknum.