132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[17:29]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta litla frumvarp sem við í þingflokki Frjálslynda flokksins fyrir hið háa Alþingi er í raun ekkert annað en tilraun til að reyna að efna þau fyrirheit sem við gáfum kjósendum í kosningabaráttunni vorið 2003. Þetta litla mál var eitt af þeim málum sem við settum á oddinn í baráttunni, við töluðum um að við mundum vilja opna fiskveiðistjórnarkerfið neðan frá, eins og við sögðum, og auka með því möguleikana, m.a. fyrir nýliðun. Við töluðum um tvær rúllur á mann og hér er frumvarpið komið fyrir þingið, tvær rúllur á mann. Við höfum mælt fyrir því og það er tilraun okkar til að koma málinu áleiðis. og þannig auka möguleikana til að mynda á nýliðun.

Við vildum einnig kanna hvernig landið liggur varðandi þetta mál. Nú fer þetta mál inn í sjávarútvegsnefnd og verður beðið um umsagnir, m.a. frá hagsmunaaðilum. Þá munum við fá að sjá viðbrögðin, fá athugasemdir við þetta mál og að sjálfsögðu nýta okkur þær athugasemdir sem koma inn til að þróa þingmálið enn frekar. Við gerum okkur að sjálfsögðu fulla grein fyrir því að þetta mál verður svæft í sjávarútvegsnefnd því að það stangast svo gersamlega á við stefnu ríkisstjórnarflokkanna í sjávarútvegsmálum og líka í byggðamálum, verð ég að segja.

Það er alveg rétt sem hefur komið fram í máli félaga minna í þingflokki Frjálslynda flokksins sem voru jú kosnir á þing m.a. út af þessu máli, að með málinu erum við að reyna að rétta sjávarbyggðunum umhverfis Ísland hjálparhönd. Við erum að reyna að útfæra í verki þá sannfæringu okkar að við teljum að sjávarbyggðirnar allt í kringum Ísland, fólkið í landinu, hafi ákveðinn rétt til að nýta fiskimiðin. Við teljum að ef lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, yrði breytt með því að bæta við þessu litla ákvæði þá væri hægt að útfæra þetta á mjög skömmum tíma. Það mundi gefa fólki sem býr á þessum stöðum tækifæri til að afla sér tekna með því að róa að þeim skilyrðum uppfylltum sem eru í þessu frumvarpi og þingmenn hafa farið yfir á undan mér.

Virðulegi forseti. Ég kom að því í andsvörum áðan að ég teldi að þær takmarkanir sem eru hér á, þ.e. að hér eru gerðar kröfur um réttindi til skipsstjórnar og vélstjórnar, að gerðar eru kröfur um að fólk skuli hafa farið á öryggisnámskeið og líka kröfur um að bátarnir skuli vera með sérstökum búnaði, tilkynningarskyldu og að þeir skuli hafa haffærniskírteini — allt þetta kostar tíma, fyrirhöfn og peninga. — Ég er alveg sannfærður um að þetta mun gera það að verkum að þeir einir munu fara út í þetta sem hafa virkilegan áhuga á því að reyna fyrir sér í fiskveiðum.

Við skulum muna þá tíma áður en kvótakerfið var sett á. Þá var frelsi hér í fiskveiðum. Þá gat hver sem er keypt sér bát og róið til fiskjar til að afla sér tekna. En það voru ekki allir Íslendingar á sjó, langt í frá. Það voru ekki allir Íslendingar á sjó. Hvers vegna skyldi það nú hafa verið? Jú, sjómennska, það að stunda sjóinn, er erfitt og það er hættulegt og það kostar líka peninga að fjárfesta í bátum og búnaði og, með þessu frumvarpi, að afla sér ákveðinnar grunnþekkingar og menntunar. Það er hreinlega ekki heiglum hent að stunda fiskveiðar við Ísland því að miðin við Ísland eru á einum erfiðustu hafsvæðum í heimi. Það þarf hörkutól til að stunda þessa vinnu og þetta vitum við öll.

Ég hef engar áhyggjur af því að þetta frumvarp leiði til neins stjórnleysis sem við þyrftum að hafa miklar áhyggjur af. Ég tel að veðurfar eitt og sér sé nægilega takmarkandi til þess að koma í veg fyrir að bátar sem eru búnir út með þessum hætti ofveiði nokkurn skapaðan hlut. Því er engin ástæða til þess að missa svefn yfir því þó að þetta fari í gegn.

Menn hafa spurt hér hversu mikið mundi veiðast árlega ef þetta yrði að veruleika. Ómögulegt er að svara því þar sem það fer að sjálfsögðu eftir því hversu margir mundu ákveða að fara út í þessa fjárfestingu og gera þetta með þessum hætti. Það færi líka eftir gæftum á hverjum tíma, veðurfari, fiskigengd og eftir því hversu viljugur fiskurinn er til að taka færi. Það færi eftir því hvað menn eru heppnir við að finna lóðningar af fiski sem væru reiðubúnar til að taka færi á hverjum tíma o.s.frv. Um þetta vitum við hreinlega ekkert. Þess vegna setjum við hérna inn ákvæði um að þetta skuli vera til reynslu í nokkur ár. Svo getum við bara staldrað við og skoðað hver árangurinn hafi verið af þessu, hvaða afleiðingar þetta hafi haft, hversu mikið hafi veiðst á þá báta sem væru þá að veiða undir þessum skilyrðum, hvers konar fiskur sé að veiðast og hvar og hvaða áhrif þetta hafi haft til að mynda á byggðirnar.

Ég er alveg sannfærður um þetta hefði mjög jákvæð áhrif á byggðirnar sem eru, eins og ég sagði áðan í stuttu andsvari, hreinlega komnar að fótum fram. Íslenskar sjávarbyggðir halda ekki út mikið lengur, því miður. Mér þykir mjög leitt að segja þetta. En það er niðurstaða mín að þær halda ekki út mikið lengur. Nú er óáran í efnahagsmálum, óhagstætt gengi. Menn hóta því að skera niður þorskkvótann enn meira. Sett voru lög á hinu háa Alþingi nú nýverið sem hafa haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir byggðirnar þegar handfæratrillur voru settar í kvóta.

Mig langar til að nota tækifærið til að lesa aðeins úr viðtali í blaðinu Fiskifréttum þann 14. október síðastliðinn, viðtali við Halldór Ármannsson skipstjóra á Stellu GK. Þar er því lýst hvað hefur gerst í smábátakerfinu frá því vorið 2004.

Hann er spurður, með leyfi forseta:

„Er ekki miklu hagkvæmara og skynsamlegra að sækja fiskinn á færri skipum?“

Halldór Ármannsson, skipstjóri og útgerðarmaður á Stellu GK, svarar svona, með leyfi forseta:

„Jú, auðvitað er nokkuð til í því. En þar með er ekki öll sagan sögð. Hagræðingin og sameiningarnar sem tröllríða öllu nú um stundir hljóta að leiða til fækkunar starfa, a.m.k. úti á landsbyggðinni. Kannski hafa þeir menn sem eftir standa eitthvað meira á milli handanna til þess að eyða í fínni hús og fínni bíla en um leið er verið að útrýma meðaljóninum sem hefur fyrst og fremst gaman af því að stunda sjósókn og lætur sér nægja að hafa vinnu og mannsæmandi laun. Samþjöppunin hefur líka þá hættu í för með sér að ef útgerð í litlu sjávarplássi er komin á hendur eins eða tveggja fyrirtækja og eigendum þeirra dettur í hug að selja skipin eða bátana úr plássinu standa íbúarnir eftir atvinnulausir með verðlausar húseignir. Þessi hætta er minni ef útgerðin byggist á fleiri en smærri útgerðum.“ — Þetta segir Halldór.

Mér finnst að þessi ágæti skipstjóri segi þarna í fáum en meitluðum setningum hvað í raun er að gerast í sjávarbyggðunum okkar. Ég segi fyrir mína parta og við segjum það fyrir okkar parta í Frjálslynda flokknum að svona getur þetta ekki gengið. Þetta er spurning um framtíðarheill þjóðarinnar. Við megum ekki láta þessi pláss deyja. Við höfum engan rétt til að taka atvinnuréttinn frá fólkinu eins og við höfum verið að gera, færa hann til örfárra sem geta svo braskað með hann og skilja síðan allt eftir í rjúkandi rúst. Ég vil ekki fara með það á herðunum inn í framtíðina að hafa komið nálægt slíkum gjörningi og þess vegna berst ég gegn þessu með kjafti og klóm. Þess vegna er ég með á þessu litla frumvarpi hér. Það er mín sannfæring að eitthvað í þessa átt — það má vel vera að eitthvað megi breyta þessu, það væri einmitt mjög gaman og athyglisvert að heyra skoðanir annarra á þessu litla frumvarpi. Það má vel vera að eitthvað megi breyta þessu — en þarna gæti verið falin leið til þess að ná meiri sátt um þessi mál. Það er sannfæring mín. Ég hlakka til þess að sjá þær athugasemdir, þær umsagnir sem munu berast um þetta litla frumvarp. Þær verða lesnar gaumgæfilega af okkur í þingflokki Frjálslynda flokksins. Því get ég lofað.

Virðulegi forseti. Að lokum hlýt ég að nota tækifærið núna til að segja örfá orð um þær fréttir sem bárust hingað síðdegis í gær frá 40 ára afmæli Hafrannsóknastofnunar um að skera verði niður þorskkvótann meira því ef það verði ekki gert helst strax sé mikil hætta á því að þorskstofninn hrynji. Þetta eru mjög alvarlegar fréttir og ef eitthvað er munu þær sennilega leiða til þess að sú samþjöppun sem ég vitnaði til áðan mun skipta um gír og verða enn hraðari því að menn sjá fyrir sér eintómt svartnætti. Það er ekkert ljós fram undan. Kvótarnir verða áfram litlir. Áfram verður haldið að kroppa í okkur. Það er best að hætta þessu og selja á meðan við fáum eitthvað fyrir þetta, koma sér út úr greininni og bjarga því sem bjargað verður. Þetta er mjög alvarlegt mál, mjög alvarlegt mál. Maður hlýtur að staldra við og spyrja: Hvað er nú til ráða?

Ég hef lýst því áður hvað ég tel að sé til ráða. Ég tel að endurskoða þurfi frá upphafi alla okkar nýtingarstefnu á þorski. Það þarf að endurskoða alla ráðgjöf frá grunni. Það þarf að fá nýja menn að borðinu í þessum vísindum að þessari ráðgjöf. Það þarf að taka miklu meira tillit til sjómanna en gert hefur verið. Það þarf líka að taka miklu meira tillit til þeirra sem hafa verið að gagnrýna. Það þarf að breyta um áherslur í hafrannsóknum. Það þarf líka að gera ákveðna hluti til þess að auka fæðuframboð á miðunum umhverfis Ísland. Ég er hér með nýjustu skýrslu Hafrannsóknastofnunar um nytjastofna sjávar og þar kemur greinilega fram að bæði þorskurinn og ýsan virðast vera að glíma við ætisskort. Þorskurinn er mjög horaður hreinlega. Í þessari skýrslu stendur, með leyfi forseta:

„Meðalþyngd 4–8 ára þorsks eftir aldri í afla lækkaði að meðaltali um 13% á árunum 2002–2004 ... og um 20% hjá 9–10 ára þorski. Meðalþyngd í stofnmælingum sýnir svipaða þróun og hefur stofnmæling í mars sýnt lækkun meðalþyngdar síðan árið 2002 ... Í stofnmælingunni í október 2004 var meðalþyngd hjá flestum aldursflokkum sú lægsta frá því mælingin hófst árið 1996.“

Þetta stendur um þorskstofninn í ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar sem kom út núna í júní síðastliðinn.

Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur að þorskstofninn á í vandræðum. Hann á bágt. Hann hefur ekki nóg af góðu æti. Þess vegna er hann að horast og hann er að horast ískyggilega mikið. Það skiptir mjög miklu máli þegar fallþungi hjá svona fiskstofni breytist um þetta 13–20%, þegar svona fiskstofn rýrnar um 13–20%, mismunandi eftir aldri. Þá skiptir það verulega miklu máli fyrir afrakstursgetu stofnsins. Það sjá allir í hendi sér.

Ef við lítum á ýsuna þá stendur hér, með leyfi forseta:

„Frá árinu 1998 hafa allir árgangar nema árgangur 2001 verið stórir. Af þessum árgöngum er meðalþyngd árgangs 2001 há en meðalþyngd árganga 1998–2000 og 2002 er lægri en þó mun hærri en árganga 1990 og 1995 sem voru sambærilegir að stærð. Einstaklingar í árgangi 2003 sem er langstærsti árgangur sem sést hefur eru hins vegar svipaðir eða léttari en einstaklingar úr árgangi 1990.“

Hér vil ég að komi fram að í árgangi 1990 var meðalþyngd mjög lág þannig að við erum að sjá meðalþyngd á ýsu núna sem er með því lægsta sem við höfum nokkurn tíma séð, alveg eins og í þorskinum. Þetta hlýtur líka að segja okkur, virðulegi forseti, að ýsan á við ætisskort að glíma.

Ég tel að tími sé kominn til þess að við mennirnir reynum að gera það sem við getum þó gert, þ.e. náttúrlega að við þurfum að breyta nýtingarmunstri okkar á fiskimiðunum í kringum Ísland. Ég tel að við eigum strax að draga markvisst úr loðnuveiðum. Við eigum að hætta veiðum á loðnu til bræðslu. Við getum leyft veiðar til hrognatöku og frystingar. En við eigum að hætta þessum bræðsluveiðum. Í staðinn eigum við að reyna að beina til að mynda meira stóru vinnsluskipunum, sem geta þó flakað og fryst síld, í íslenska síldarstofninn. Þau geta þá sinnt verkefnum þar en látið loðnuna í friði í staðinn. Þannig tel ég að við gætum hugsanlega náð að bjarga þessu fyrir horn, gætum náð upp betri vexti bæði á þorski og ýsu. Það mundi strax skipta mjög miklu máli ef við gætum kannski á tveggja ára tímabili eða svo aukið fallþunga í þessum tveimur stofnum, í veiðistofni, um þetta 20%. Þá værum við strax að vinna mjög mikið. Ég held að það hljóti að hafa mjög mikil og alvarleg áhrif að veiða loðnu í bræðslu á grunnslóð hér við land á veturna. Sú loðna sem gengið hefur hér á grunnslóðinni hefur nefnilega ákveðnu hlutverki að gegna. Á þetta hef ég margoft bent bæði í ræðum og riti, að þessi litli laxfiskur sem syndir norðan úr höfum kemur yfir grunnslóðina hrygnir þar og deyr, ef hann er þá ekki veiddur af okkur. En hann hrygnir og deyr. En þó að hann hrygni og deyi þá hverfur hann ekki úr vistkerfinu. Hann breytist í eitthvað annað. Þetta er næring sem breytist í eitthvað annað eins og öll næring. Þetta eru fiskar með kalt blóð. Orka þeirra fer að mestu leyti í að hreyfa sig og síðan til vaxtar og viðhalds og þegar þeir deyja þá umbreytast þeir í eitthvað annað sem aftur myndar fæðukeðjuna fyrir fiskana og lífríkið í hafinu, lífríkið í sjónum.

Ég tel að við getum einfaldlega ekki leyft okkur að taka út á hverjum vetri, eins og við höfum verið að gera, milljón tonn af þessum orkumikla litla laxfiski og bræða hann í mjöl og lýsi svo að Norðmenn geti framleitt eldislax. Það er hreinlega ekki verjandi lengur. Við eigum frekar að fara út í þessa tilraun, sem ég er nokkuð sannfærður um að mundi heppnast með ágætum, að skilja meira af þessari loðnu eftir handa mikilvægustu og verðmætustu nytjastofnunum okkar og ná þannig meiri afrakstri út úr kerfinu. Með því skapast svigrúm til nýliðunar í stétt sjómanna. Ef við getum farið að auka veiðar úr þessum botnfiskstofnum, til að mynda okkar verðmætasta fiskstofni þorskinum, ætti að skapast svigrúm fyrir nýja aðila í greininni en þá skortir sárlega. Ég held að jafnvel útgerðarmenn hljóti að geta viðurkennt að grein án nýliðunar er dæmd til að deyja. Slík atvinnugrein getur ekki spjarað sig til framtíðar. Við verðum að fá nýtt blóð inn í greinina. Það verður að gefa ungum og efnilegum mönnum og konum tækifæri til að koma þar undir sig fótunum. Öðruvísi getur þetta ekki gengið til framtíðar.

Þetta ættu þeir að vita sem nú stunda útgerð því að einu sinni voru þeir ungir menn, efnilegir og duglegir. Þeir hafa svo sannarlega sýnt mikinn dugnað í gegnum árin. En þeir ættu líka, mér finnst það oft og tíðum gleymast hjá þeim, að hugsa til þess þegar þeir sjálfir voru að byrja. Þeir mættu þá hugleiða það í leiðinni hvaða möguleika þeir hefðu til að koma undir sig fótunum í því kerfi sem nú er við lýði. Ég held að þeir sjái það flestir, ef ekki allir, í hendi sér að þeir ættu enga möguleika. Þeir færu sennilega allir að gera eitthvað annað en að beita kröftum sínum í sjávarútvegi.

Þannig er þetta nú, því miður. Ég hygg að það gefist fleiri tækifæri á næstu dögum til að ræða fiskveiðistjórnarmál hér í þessum sal. Það eru mál sem bíða þess að verða lögð fram og ég hef líka óskað eftir utandagskrárumræðu við hæstv. sjávarútvegsráðherra um ástand þorskstofnsins og horfur í veiðum hér á næstu missirum. Þetta er umræða sem við verðum að taka. Það hafa vaknað mjög alvarlegar og ákveðnar spurningar um þessa ráðgjöf, um hafrannsóknir við Ísland. Það hefur ekki verið hlustað á varnaðarorð okkar sem höfum þó prófað að hrópa.

Ég vil nota tækifærið núna á síðustu mínútu minni hér í ræðustóli til að minna á að ég hafði uppi mjög ákveðin aðvörunarorð nú í maí til að reyna að vekja menn til umhugsunar. Þá olli það mér mjög miklum vonbrigðum að sjá að sérstaklega stjórnarþingmenn virtust ekki hafa neinn áhuga á að hlusta og því miður fór sem fór. Við höfum áfram látið reka á reiðanum án þess að taka þessa umræðu. Ég fæ ekki séð af viðbrögðum núverandi sjávarútvegsráðherra hæstv., sem er nýtekinn við, að hann hafi í raun og veru neinn áhuga að breyta nokkrum sköpuðum hlut. Hann ætlar að halda áfram á þeirri gölnu vegferð sem við höfum verið á mjög mörg undanfarin ár þar sem við erum föst í vítahring hagsmunagæslu stjórnmálamanna, hagsmunagæslu þeirra sem starfa í greininni og hagsmunagæslu embættismanna.

Þessi vítahringur minnir því miður mjög á ástandið eins og það var í Kanada rétt áður en þorskstofninn hrundi þar. Þar vildu menn heldur ekki hlusta á aðvörunarorð, ekki ákveðnir stjórnmálamenn, ekki hagsmunaaðilar og ekki embættismenn, því allir höfðu eitthvað að verja. Ef það voru ekki peningahagsmunir þá var það svokallaður starfsheiður, menn voru of stoltir til að kyngja því að þeir hefðu haft rangt fyrir sér og áttuðu sig ekki á því að þeir voru á rangri leið fyrr en það var orðið of seint.

Ég vona að við Íslendingar förum að ranka við okkur og sjá að við getum ekki leyft þeim mönnum sem hafa stjórnað á undanförnum missirum að halda áfram. Þeir hafa sýnt og sannað að þeir hafa gert of mörg mistök, þeir hljóta að teljast vanhæfir í því starfi sem þeir hafa þó verið að sinna mörg undanfarin ár.