132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stéttarfélög og vinnudeilur.

32. mál
[18:28]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru hv. þingmenn Magnús Þór Hafsteinsson og Sigurjón Þórðarson, þingmenn Frjálslynda flokksins.

Þetta mál hefur verið flutt hér nokkrum sinnum áður, hæstv. forseti, og ætla ég þar af leiðandi að reyna að stytta mál mitt því að mönnum ætti að vera þetta kunnugt. Meginefni frumvarpsins kveður á um það að þegar svo hagar til að kjarasamningar við ákveðnar starfsstéttir hafa dregist mánuðum saman skuli þau ákvæði sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir verða virk, þ.e. ef kjarasamningar hafa verið lausir lengur en sex mánuði mælir frumvarpið fyrir um að upphafshækkun launaliða og önnur atriði sem bæta kjör launþega þegar kjarasamningur kemst á virki aftur til helmings þess tíma sem liðinn er án nýs kjarasamnings.

Þetta segir í rauninni það að hafi ekki tekist að gera kjarasamning innan sex mánaða gerist það sjálfkrafa, ef þessi breyting verður að lögum og verður felld inn í lög um stéttarfélög og vinnudeilur, að í þeim kjarasamningi sem kemst á eftir að sex mánuðir eru liðnir séu þær hækkanir og þau kjör sem um er samið þar og það virki aftur til þess tíma sem liðinn er, sem segir að upphafsákvæði samningsins virki þrjá mánuði aftur í tímann. Þetta hefði t.d. komið til greina í kjaradeilum hjá kennurum og vafalaust einhvern tíma hjá opinberum starfsmönnum, ef ég man rétt, og þetta hefði nokkrum sinnum getað haft áhrif á kjarasamninga sjómanna, einkum á fiskiskipum. Eins og menn geta séð ef þeir lesa frumvarpið er sérstök tafla á bls. 3, fylgiskjal, þar sem er yfirlit um kjarasamningagerð fiskimanna og hvernig hún hefur iðulega dregist mánuðum og árum saman án þess að komist hafi á nýr kjarasamningur.

Síðan segir efnislega í frumvarpinu, hæstv. forseti, að dragist gerð kjarasamnings lengur en sex mánuði, um t.d. tvo mánuði til viðbótar, þá bætist einn mánuður aftan við gildistökuákvæðið og samningar gilda þá fjóra mánuði aftur í tímann frá því að samningur kemst á. Þannig er þetta hugsað að eftir tólf mánuði eða meira með lausa kjarasamninga gildir upphafshækkunin sem um er samið við lausn kjaradeilunnar frá því að samningurinn féll úr gildi. Jafnframt er tekið fram að óheimilt sé að semja um annan upphafsgildistíma, nema því aðeins að launþegum verði greidd eingreiðsla sem telst jafngild í tekjum þeim afturvirku upphafshækkunum eða áfangahækkunum á liðnum tíma án endurnýjunar kjarasamnings sem lög þessi kveða á um. Ef mönnum finnst mjög snúið að láta samninga virka aftur fyrir sig í tólf mánuði, eins og hér er gerð tillaga um, ef svo hagar til að ekki hefur komist á kjarasamningur við einhverja stétt innan tólf mánaða, er heimilt að hverfa frá því að ákvæðin virki aftur fyrir sig sjálfkrafa en þó því aðeins að um það sé samið með sérstakri greiðslu sem sé jafngild því sem menn mundu reikna út að teldist að hefði komið launþeganum til góða ef hann hefði fengið hækkanir sínar þegar kjarasamningurinn féll úr gildi.

Þetta ákvæði er nauðsynlegt að hafa í lögunum, einkum vegna þess að það kunna jú að vera vandkvæði á því að reikna launabreytingar aftur í tímann og gera þær upp af ýmsum ástæðum. Þess vegna er þetta ákvæði sett inn þó að það eigi almennt ekki við á vinnumarkaði, einkum þar sem menn starfa á vikulegu eða mánaðarlegu uppgjöri. En vera kann að ýmsar ástæður eins og uppgjör á aflahlut og öðru slíku geti leitt það af sér að það sé snúið eða aðrar sérstakar greiðslur sem til eiga að koma og menn vilji þá frekar í staðinn fyrir að fara að reikna allt aftur í tímann meta þetta til eingreiðslu og greiða hana, en þá verður það auðvitað að gerast með samkomulagi launþega og vinnuveitenda í hverju tilviki. Það er sem sagt heimilt ef um slíkt er að ræða.

Þetta er meginefni frumvarpsins, hæstv. forseti, og ég tel að með því sé verið að leggja til réttarbót fyrir launþega og verið sé að kveða á um það að ef launþegar eru kjarasamningslausir mánuðum saman og jafnvel upp í yfir ár þá felist réttarbót launþega í því að honum sem einstaklingi er tryggð leiðrétting á launum í samræmi við það sem samið hefur verið um við önnur launþegasamtök og stéttarfélög.

Eins og ég gat um fyrr í máli mínu hafa nokkrum sinnum komið upp tilvik þar sem kjarasamningar hafa dregist langtímum saman. Er á það bent í fylgiskjali eins og ég gat um varðandi sjómannadeilurnar og einnig hygg ég að þetta hafi átt við í nokkrum tilvikum varðandi aðrar kjaradeilur.

Þetta mál hefur áður verið kynnt í hv. Alþingi. Það hefur farið til nefndar og sent út og nokkrar umsagnir hafa komið um það, m.a. á síðasta ári. Mig langar að vitna örstutt í niðurstöður af nokkrum af þeim umsögnum sem borist hafa áður um þetta mál.

Vélstjórafélag Íslands segir, með leyfi forseta:

„Í ljósi þessa er hér um verulega réttarbót að ræða sem Vélstjórafélag Íslands styður.“ Þetta er meginniðurstaða umsagnar Vélstjórafélagsins.

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands segir að það lýsi eindregnum stuðningi við frumvarpið og síðan bendir það á að e.t.v. þyrfti að skoða aðra liði sem snúa sérstaklega að kjarasamningum sjómanna, og yrði það þá gert í nefnd. Það varðar einkum atkvæðagreiðslur, því að svo getur hagað til og er það samkvæmt vinnulöggjöfinni að þeir hafi orðið að gera samkomulag um hvernig atkvæðagreiðslum skyldi hagað vegna þess að þannig getur háttað að veiðiferðir samkvæmt kjarasamningum sjómanna geta staðið allt að 40 daga. Þess vegna þarf að huga að því þegar verið er að tala um atkvæðagreiðslur, póstatkvæðagreiðslur o.s.frv. og gera þá um það sérstakt samkomulag.

Með þann fyrirvara segja þeir, með leyfi forseta:

„Að þessu atriði leiðréttu þá er um mikið framfaramál að ræða sem leiða ætti til skemmri kjaradeilna en verið hafa við lýði undanfarin ár.“ Þetta segir Farmanna- og fiskimannasamband Íslands.

Bandalag háskólamanna segir að BHM styðji frumvarpið og áréttar þá skoðun sína að ein vinnulöggjöf gildi í landinu o.s.frv.

Síðan kom þeir með texta sem þeir telja að geti orðið til bóta og segja síðan, með leyfi forseta:

„Í umsögn BHM um sama mál, dags. 29. nóvember 2002, var vitnað í skýrslu dr. Sveins Agnarssonar hagfræðings um áhrif þess að endurnýjun kjarasamninga aðildarfélaga BHM dróst um marga mánuði við síðustu kjarasamningsgerð, árin 2000–2001. Þar var sýnt fram á að dráttur þessi sparaði ríkissjóði 1.130–1.200 milljónir króna og því ljóst að nauðsynlegt er að tryggja með lögum að vinnuveitendur hafi ekki beinan hag af því að draga endurnýjun kjarasamninga.“ Svo segir í áliti Bandalags háskólamanna.

Ég vil einnig geta þess að umsagnir komu frá ASÍ, þar sem það lýsti því yfir að það væri frekar andvígt því að verið væri að breyta lögunum á þann hátt sem hér er lagt til. Þeir sögðust svo sem efnislega vera sammála málinu en töldu að semja þyrfti um það á vinnumarkaði að haga lagabreytingum með þessum hætti. Ég hafði nú vonast til þess að menn gerðu þá grein fyrir því fyrir nefnd hvernig þeir teldu að ákvæðið þyrfti að líta út svo að vel mætti við una.

Þetta vildi ég sagt hafa, hæstv. forseti, um þetta mál og tel að það þurfi svo sem ekki að færa meiri rök fyrir því í þessari framsöguræðu minni. Eins og ég gat um hefur málið áður verið til umsagnar og kynningar í hv. Alþingi. Ég vonast til þess að dropinn holi steininn og smátt og smátt nái menn að lagfæra vinnulöggjöfina í þessa veru og ég vona að frumvarpið sé innlegg í þá niðurstöðu. Ég geri ekki neina kröfu til þess að sá texti sem við í Frjálslynda flokknum höfum skrifað sé sá eini og sanni en lýsi ánægju með að launþegar hafa tekið undir þá hugsun sem orðuð er í frumvarpinu.