132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Fyrirhugaðar álversframkvæmdir.

[13:33]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Sem betur fer er fólk um allt land að hugsa um framtíðina. Það hugsar um möguleika á uppbyggingu í margvíslegum iðnaði til að skapa störf í landinu. Ég veit vel að hv. þingmenn Vinstri grænna vilja útiloka ákveðna framleiðslugrein hér á landi, þótt ég hafi aldrei skilið af hverju það er. Það er ekki þannig með þær hugmyndir sem nefndar hafa verið að menn sjái hvenær hugsanlegar framkvæmdir hefjist. Þetta er allt á umræðu- og undirbúningsstigi.

Það er ekkert nýtt í þessum fréttum. Það er ekkert nýtt í því að fram hafi farið umhverfismat á hugsanlegri stækkun í Straumsvík. Það er ekkert nýtt í því að aðilar á Norðurlandi hafi áhuga á að virkja og reisa álver í Eyjafirði, við Húsavík eða jafnvel í Skagafirði. Það fer fram athugun á því hvar hugsanlegt staðarval gæti orðið og fer fram athugun á því hvort hægt væri að tryggja nægilega orku til þess.

Það eru líka áhugasamir aðilar sem vinna að því að efla atvinnu í Reykjanesbæ. Er það ekki af hinu góða að fólkið í landinu skuli hugsa til framtíðar? Eru Vinstri grænir svo bundnir við fortíðina að þeir geti ekki einu sinni leyft fólki það, vilji helst banna því að hugsa eitthvað um framtíðina?