132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Fyrirhugaðar álversframkvæmdir.

[13:44]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði áðan í ræðu sinni að Vinstri hreyfingin – grænt framboð horfði til fortíðar. Vissulega gerum við það, eins og allir eiga að gera. Við eigum að læra af reynslunni. Við eigum að horfa til stöðunnar í dag, viðurkenna og sjá hver staða íslensks efnahagslífs er í dag og af hvaða rótum sá vandi er sprottinn.

Í þeim miklu framkvæmdum og óhemjustóra verkefni sem ráðist hefur verið í á Austurlandi, bæði virkjun og álveri, höfum við spennt bogann of hátt. Fyrir það blæðir annað atvinnulíf í landinu, allt sem byggist á framleiðslu, útflutningi og allt sem heitir undirstaða íslensks efnahagslífs. En sá grunnur sem þjóðin á að byggja og treysta á er framleiðslan í landinu. Framleiðsla til útflutnings er að hrynja og atvinnurekendur hafa lifað í þeirri trú að þessum ósköpum mundi linna innan skamms tíma, a.m.k. miðað við loforð um að 2007 kæmist á eitthvert eðlilegra ástand í efnahagslífinu. Hinum miklu framkvæmdum yrði þá lokið. Þeir eru þegar farnir að kikna. Þeir ná ekki að þreyja þorrann í mörg ár í viðbót.

En nú berast fréttir um að í undirbúningi sé stækkun og bygging þriggja nýrra álvera með framleiðslugetu upp á 700–800 þús. tonn. Þá spyr ég: Hvar á að taka orkuna í þessi álver? Hvað með rammaáætlunina og hvað með mengunarkvótana? Hvað með Kyoto-bókunina og hvað með sjálfbæra þróun?