132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Framkvæmd þingsályktunar um stofnun sædýrasafns.

103. mál
[13:57]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Með bréfi, dagsettu 6. júlí 2004, fól forsætisráðherra menntamálaráðuneyti að hafa forgöngu um gerð skýrslu til Alþingis um stofnun veglegs sædýrasafns, samanber þingsályktun um stofnun sædýrasafns sem samþykkt var á Alþingi 27. maí 2004. Samkvæmt þeirri þingsályktun skal kanna kosti og hagkvæmni þess með tilliti til ferðaþjónustu og almannafræðslu um lífríki hafsins að byggt verði upp veglegt sædýrasafn sem yrði í senn lifandi fiskasafn og fróðleiksnáma um lífríki Norður-Atlantshafsins, rannsóknir og vísindi, verndun og nýtingu fiskstofnanna og umgengni við hafið.

Samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu mun hlutverk fyrirhugaðs sædýrasafns, samkvæmt umræddri þingsályktun, skarast við hlutverk náttúruminjasafns og því er eðlilegt að vinna við skýrslu þessa taki hliðsjón af lögum um náttúruminjasafn. Í menntamálaráðuneytinu er verið að leggja lokahönd á frumvarp til laga um náttúruminjasafn í nánu samstarfi við umhverfisráðuneytið. Fyrirhugað sædýrasafn gæti verið hluti af náttúruminjasafni Íslands, annaðhvort sem sérdeild eða sem sérsafn með sérstaka ábyrgð á hafsvæðinu og lífríki þess.

Menntamálaráðuneytið skipaði starfshóp með fulltrúum frá sjávarútvegsráðuneytinu, landbúnaðarráðuneytinu, samgönguráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu þann 12. júlí 2005. Í þessum hópi sitja Ragnheiður H. Þórarinsdóttir formaður, frá menntamálaráðuneytinu, Jón Gunnar Ottósson, frá umhverfisráðuneytinu, Jón Eðvald Malmquist, frá samgönguráðuneytinu, Níels Árni Lund, frá landbúnaðarráðuneytinu, og Hulda Lilliendahl, frá sjávarútvegsráðuneytinu.

Hlutverk starfshópsins er að vinna að skýrslu um stofnun sædýrasafns þar sem tekið yrði tillit til áforma um náttúruminjasafn Íslands. Það er stefnt að því að ljúka starfi hópsins nú á þessu hausti eða fyrir áramót með greinargerð til menntamálaráðherra og síðan þarf að taka afstöðu til málsins þegar sú greinargerð liggur fyrir.