132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Framkvæmd þingsályktunar um stofnun sædýrasafns.

103. mál
[14:00]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Mér fannst svar hæstv. forsætisráðherra helst gefa okkur til kynna hve seinvirk stjórnsýslan á Íslandi er. Mig langar að spyrja bara til að vera viss um að ég hafi heyrt rétt, þingsályktunin var samþykkt 27. maí 2004, 6. júlí sama ár eða talsvert löngu síðar er sent bréf til menntamálaráðuneytisins og ári síðar eða í júlí 2005 er skipaður starfshópur. Ég vil bara fá það staðfest að ég hafi örugglega heyrt rétt þær dagsetningar sem þarna var farið með því að mér finnst þetta sýna okkur svart á hvítu hversu hæg stjórnsýslan getur verið oft og tíðum.

Það var mikil umræða um þessa þingsályktunartillögu á sínum tíma. Í upphafi var hún eingöngu miðuð að höfuðborgarsvæðinu. Mig minnir að gerðar hafi verið breytingar á henni í meðförum þingsins og landið allt sett undir og er eðlilegt að það taki þá kannski svolítið lengri tíma að skoða málið. Það átti að skila skýrslu fyrir 1. mars 2005 en það er ekki fyrr en í júlí sama ár sem starfshópurinn er skipaður. Getur þetta verið rétt?