132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Framkvæmd þingsályktunar um stofnun sædýrasafns.

103. mál
[14:02]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég skil það að menn þurfi að skoða þessi mál í samhengi. Það er hins vegar skoðun mín að Ísland þurfi að eiga sædýrasafn. Það þarf að vera myndarlegt safn sem sýnir lífríki hafsins og gefur bæði Íslendingum og þeim sem hingað koma, gestum, tækifæri til að kynnast lífríki hafsins á stað þar sem myndarlega er staðið að þeim hlutum. Slík söfn eru gríðarlega mikils virði fyrir þjóðina sjálfa og líka fyrir ferðaþjónustuna. Ég er þess vegna á þeirri skoðun að það sé ekki spurning um að þetta eigi að vera sérstakt safn. Menn hafa unnið undirbúningsstörf á fleiri en einum stað hér á landi með tilliti til þess að koma upp slíku safni þannig að hugmyndir eru til. En mín skoðun er sú að þetta verði safn sem eigi að vera sérstakt fyrir Ísland. Þarna þarf að standa myndarlega að verki.