132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Framkvæmd þingsályktunar um stofnun sædýrasafns.

103. mál
[14:10]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég held að það liggi nokkuð ljóst fyrir að aldrei hefur verið annars eins áhugi fyrir safnamálum og nú er í landinu og það hefur aldrei verið jafnmyndarlega tekið á þeim málum fyrr. Verið er að reisa og bæta söfn um allt land þannig að þessum málaflokki er mjög vel sinnt. En ég held að við getum öll verið sammála um að náttúruminjasafnið býr við afskaplega slakan húsakost og það hefur lengi staðið til að bæta þar úr. Einhver sagði að það væri okkur til skammar og það má mín vegna alveg orða það svo. Við vitum það öll sem höfum komið í það annars glæsilega safn að þar er til mikið af mjög góðum gripum og fallegum munum sem eru áhugaverðir fyrir alla landsmenn og þá ekki síst yngstu kynslóðina.

Það er mikill áhugi fyrir því að sinna sædýrasafni og verið er að vinna að því. Ég skil áhuga þingmanna mjög vel í þeim efnum. Við erum nú einu sinni þjóð sem lifir á auðlindum hafsins að mjög miklu leyti og því eðlilegt að til sé safn í landinu sem endurspeglar þær staðreyndir. Ég tek fyllilega undir það. Þessi áhugi hefur verið lengi til staðar en ekki verður allt gert í einu. Þetta er eitt af því sem býður okkur inn í framtíðina. Það er verið að vinna að undirbúningi þessa máls. Það hafa komið hér fram ýmsar hugmyndir um það hvar koma mætti slíku safni fyrir. Allt er það af hinu góða og það eru atriði sem þarf að taka til skoðunar í þessu sambandi.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn en það er hins vegar misskilningur hjá honum að ríkisstjórnin hafi engan áhuga á málinu.