132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Aðgerðir til að bæta heilbrigði Íslendinga.

157. mál
[14:16]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Skipan þessarar nefndar hefur verið undirbúin með eðlilegum hætti og ég verð að segja það alveg eins og er að það vakti nokkra undrun mína að hv. þingmaður legði aðaláherslu á það í umræðum um þessi mál að lesa upp úr fréttum Ríkisútvarpsins. Ég hélt að að væri alveg nóg að þeir sem þær fréttir lesa ágætlega sinni því hlutverki.

Það er rétt að þessi nefnd hefur nýlega verið skipuð og henni er ætlað að greina vandann sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi og koma með tillögur að samræmdum aðgerðum til að taka á vandamálum sem því tengjast. Með nefndinni mun starfa sérfræðingateymi. Nefndin er að fara af stað, hún er að hefja störf, og hún mun leitast við að kalla eftir sem flestum sjónarmiðum í störfum sínum.

Ég bind miklar vonir við störf þessarar nefndar og tel að lykillinn að bættum árangri þjóðarinnar í þessum efnum felist ekki síst í breyttu hugarfari, nýju viðhorfi okkar Íslendinga til mataræðis og hreyfingar. Auðvitað eru engar patentlausnir til og vitaskuld er það alveg rétt að gengið hefur verið fram hjá fjölmörgum einstaklingum sem eru hæfir til þess að starfa í slíkri nefnd. Ég þekki ekkert tilvik, þegar nefnd hefur verið skipuð í þessu landi, þar sem ekki hefur verið gengið fram hjá mjög mörgum hæfum einstaklingum. Ég held að það sé alveg ljóst að í kosningum hefur oft verið gengið fram hjá mjög mörgum hæfum einstaklingum til að sitja á Alþingi með fullri virðingu fyrir þeim hv. þingmönnum sem hér sitja. Þannig er það nú. Sjálfsagt er sá ágæti maður sem talaði í þessum fréttatíma einn af þeim hæfu einstaklingum sem hefði verið fullur sómi af að hafa í nefndinni.

En formaður nefndarinnar er Þorgrímur Þráinsson blaðamaður. Hann hefur getið sér mjög gott orð fyrir markvisst og ötult starf í þágu baráttunnar gegn tóbaksreykingum og ég er fullviss um að hann getur ekki verið síðri baráttumaður gegn fitunni. Hann var um árabil landsliðsmaður í knattspyrnu, ritstjóri Íþróttablaðsins og þar að auki afkastamikill rithöfundur. Ég sagði áðan að það væri ekki síst hugarfarsbreyting sem þyrfti að koma hér til og ég sé ekki betur en þessi ágæti maður sé mjög góður í því.

Aðrir í nefndinni (Gripið fram í: Hann er í Val.) — já, er líka í Val, ekki er það nú verra, — eru Sigurbjörn Sveinsson, formaður Læknafélags Íslands, dr. Jón Óttar Ragnarsson næringarfræðingur, Halla Karín Kristjánsdóttir íþróttakennari, Anna Ólafsdóttir, forstjóri Lýðheilsustöðvar, — það er að sjálfsögðu mikilvægt að Lýðheilsustöðin komi að málinu — Sæunn Stefánsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, Árni Einarsson, uppeldis- og menntunarfræðingur, Petrína Baldursdóttir, leikskólastjóri og fyrrverandi alþingismaður — sem er mikilvægt að hafa í huga — og Valur M. Gunnlaugsson matvælafræðingur.

Hér var dr. Jón Óttar Ragnarsson sérstaklega nefndur. Hann er hámenntaður vísindamaður á þessu sviði. Hann hefur skrifað fjölmargar bækur um mataræði, hreyfingu og næringarfræði. Hann hefur gengist fyrir ráðstefnum um manneldismál. Hann stýrði uppbyggingu matvælafræðideildar við Háskóla Íslands og starfaði við matvælarannsóknir fyrir RALA. Ég tel það alveg sérstaklega gott að fá hann til liðs í þessu máli. Ég heyrði heldur ekki betur en viðkomandi læknir, sem talaði um hann, bæri fyrir honum fulla virðingu og ég heyri að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir gerir það líka. Ég skil ekki af hverju verið er að draga nafn hans upp í þessu sambandi. Það kemur málinu ekkert við hvaða atvinnugrein hann hefur stundað eða hvort hann hefur selt einhverja tiltekna afurð. Mér finnst með eindæmum að vera að blanda því inn í málið.