132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Aðgerðir til að bæta heilbrigði Íslendinga.

157. mál
[14:22]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég vil sérstaklega gleðjast yfir svari forsætisráðherra, að búið sé að koma þessum faghópi sem þingsályktunartillagan gengur út á á laggirnar og hann sé tekinn til starfa. Þetta er mikið þjóðþrifamál sem var ekki aðeins þverpólitísk sátt um í vinnu innan heilbrigðisnefndarinnar heldur var það líka unnið í góðu samstarfi við bæði Læknafélagið, stéttarfélag og fagfélag lækna, og við Lýðheilsustöðina. En af því að skipun nefndarinnar kom hér til tals og hv. þm. Ásta Ragnheiður hafði einhverja athugasemd við það þá ætla ég að halda því til haga að innan nefndarinnar var lögð mikil áhersla á það hversu víðtækt þetta verkefni væri og hve það væri þýðingarmikið að tryggja þátttöku sem flestra viðkomandi ráðuneyta auk fulltrúa Lýðheilsustöðvar sem samkvæmt lögum hefur stóru hlutverki að gegna á þessu sviði.

Vegna athugasemdar hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur vil ég líka taka það fram að eitt af því sem nefndinni er falið er akkúrat að horfa til verðlagsmála, horfa vítt og breitt um samfélagið, á alla þá þætti sem geta haft áhrif á þetta.