132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Frávísanir í framhaldsskólum.

113. mál
[14:40]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra hreinskilin svör þó að þetta sé auðvitað alvarleg tala. En það sem mér finnst kannski alvarlegast í þessu er að þetta séu, eins og hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir kom inn á, þeir sem eru að koma í framhaldsskólann aftur.

Ég fagna því að taka eigi upp rafræna innritun fyrir alla nemendur þannig að haldið verði utan um það hvað verður um þá nemendur sem eru eldri. Við verðum að vita eitthvað um svokallaða námshegðun þessa hóps og vita hvernig framhaldsskólinn tekur á móti honum. Ég tel það mjög mikilvægt, ég fagna þeirri yfirlýsingu og vona að rafræn skráning nái að halda það vel utan um eldri hópinn að hægt sé að bæta aðgengi þeirra til framtíðar inn í framhaldsskólann. Nógu hár er þröskuldurinn nú þegar og slæmt ef fréttir af frávísunum halda þeim frá.