132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Frávísanir í framhaldsskólum.

113. mál
[14:42]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Það er tvennt sem mig langar að nefna í þessari umræðu. Í fyrsta lagi hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra menntamála að nú með þessari rafrænu skráningu sé mun auðveldara að fylgjast með þeim tölum, þeim hagtölum getum við kallað, sem hér hefur verið spurt um og þá langar mig að spyrja: Er ekki rétt að slíkar hagtölur séu birtar þannig að það þurfi ekki að karpa um það í þingsal í fyrirspurnatíma og í ræðum aftur og aftur? Ég held að það mundi létta mjög störfin ef svo væri gert.

Mig langar líka að nefna brottfallið. Hverjir komast ekki að í framhaldsskólunum? Kann það að vera, og mig grunar að svo sé að hluta til, að það séu nemar sem láti skrá sig inn aftur og aftur en stundi ekki nám, falli frá námi. Ég hef ákveðinn grun um að það sé hluti af þeirri tölu. Mér finnst, hæstv. forseti, að kanna þurfi hvað liggur á bak við þessar tölur.