132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Óhollt mataræði í skólum.

160. mál
[14:56]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því hve óvenjujákvæð hæstv. menntamálaráðherra er í þessu máli og hvet hana til að taka sér ríkisstjórn Tonys Blairs og Verkamannaflokksins í Bretlandi sér til fyrirmyndar þar sem þeir hafa skorið upp herör gegn ruslfæði í skólum.

Þetta er stórt mál og gott að hv. þingmaður hreyfði við því. Sjálfur var ég um tíma forfallakennari í matreiðslu í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ og þekki vel hversu mikilvægt það er að kenna börnunum hollt mataræði og hve mikilvægt er að næringarfræði sé haldið mjög að börnum og boðið sé upp á hollt fæði í skólunum.

Eins og skólastjóri í Fellaskóla sagði einu sinni við mig í heimsókn Samfylkingarinnar þangað var það eitt af stærstu vandamálunum í skólanum hvað stór hluti barnanna kom í skólann á morgnana án þess að hafa borðað morgunmat og var þess vegna mjög til ófriðar fram eftir degi. Þetta er því eitt af þeim málum sem þarf vissulega að skoða. Það er mataræði í skólum, bæði hollt og óhollt.