132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Óhollt mataræði í skólum.

160. mál
[15:03]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Þegar spurt er um skóla hlýt ég að tala um allt skólakerfið frá leikskóla og alveg upp í háskóla. En ég tek undir með hv. þingmanni. Það skiptir mjög miklu máli að þetta fari saman, hollt mataræði og hreyfing. Þannig er það nú. Ég hvet alla líka til að byrja heima fyrir. Hv. þingmaður vék hér áðan að því að börnin í skólum landsins kæmu oft frekar vannærð eða lítt nærð í skólann að morgni. Ég held að við verðum að byrja heima fyrir og muna að hollur morgunmatur er uppistaðan í deginum. við verðum líka að hafa hugfast að því miður erum við allt of gjörn á það að keyra t.d. börnin okkar, skutla þeim hingað og þangað. Við verðum náttúrlega að reyna að hvetja alla til hreyfingar. En það er ekki mikil hvatning í því að letja börnin okkar til þess að hreyfa sig með því að skutla þeim kannski nokkur hundruð metra í skólann. Auðvitað á að byrja heima fyrir.

Skilaboðin af minni hálfu eru alveg skýr til allra þeirra sem starfa í skólum landsins, hvort sem það er í leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla eða í háskóla, þ.e. að bjóða upp á hollan og góðan mat og að þetta verði gert í samstilltu átaki en ekki í gegnum miðstýrðar ákvarðanir. Skilaboðin af minni hálfu eru skýr: Hafa hollan og góðan mat, hreyfa sig sem mest, en að frumkvæðið og samstaðan og samvinnan í þessum efnum komi innan frá, komi frá skólunum, komi frá nemendunum í framhaldsskólanum, kom frá kennurum og skólastjórnunum í framhaldsskólunum.

Á meðal sveitarfélaganna eru mjög góðir hlutir að gerast. Þau hafa staðið sig vel varðandi það að tryggja framboð á hollum og góðum mat. Ég vil líka benda á það að á vegum Lýðheilsustofnunar eru unnar kannanir reglulega um mataræði landsmanna og mér skilst líka á meðal skólafólks og það er nokkuð sem við eigum að nýta til enn frekari hvatningar og stefnumótunar.