132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Kanínubyggð í Vestmannaeyjum.

104. mál
[15:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um kanínubyggð í Vestmannaeyjum. Það hefur nefnilega runnið upp fyrir fólki að kanínur eru að gera usla í fuglabyggðum í Vestmannaeyjum, í lundabyggðum nánar til tekið. Þessi dýr hafa verið flutt til Eyjanna af fólki. Þau hafa síðan sloppið laus og byrjað að fjölga sér, náð fótfestu í náttúrunni. Þær koma sér fyrir á búsvæðum lundans í holum í jarðveginum, í bröttum hlíðum Heimaeyjar, grafa þar út jarðveginn, valda jarðvegstjóni og hrekja lundann á brott úr holum sínum, spilla fyrir honum varpi og þar fram eftir götunum.

Margir hafa látið í ljós þá skoðun að hér hljóti að vera hætta á umhverfisspjöllum, bæði að lundinn verði fyrir áföllum með varp sitt en einnig að það sé hætta á jarðvegsrofi og því að jarðvegur skríði í sjó fram eftir að kanínurnar hafa nagað rætur jarðvegsins og grafið holur og þannig ýtt undir það að þessi jarðvegseyðing fari af stað.

Ég vil því bera fram eftirfarandi spurningar til hæstv. umhverfisráðherra:

1. Hafa farið fram rannsóknir á áhrifum kanína á fuglalíf í Vestmannaeyjum og ef svo er, hverjar eru þá helstu niðurstöður þeirra?

2. Hafa stjórnvöld aðhafst eitthvað til að stemma stigu við útbreiðslu kanína í Vestmannaeyjum?

3. Hyggjast stjórnvöld grípa til aðgerða til að útrýma kanínum í Vestmannaeyjum?