132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Kadmínmengun í Arnarfirði.

106. mál
[15:38]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Hér er einnig hreyft mikilvægu máli og gott að hafa slíka staðfestu af hálfu hv. fyrirspyrjanda. Árið 2004 var veittur styrkur úr AVS-rannsóknarsjóði, þ.e. aukin verðmæti sjávarfangs, á vegum sjávarútvegsráðuneytisins. Styrkurinn var að upphæð 2,5 millj. kr. til slíkra rannsókna. Auk þess kom framlag frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sem annaðist þessa rannsókn. Tekin voru sýni til mælinga árið 2004 úr hörpudiski, kræklingi, seti og rækju úr Arnarfirði. Unnið verður úr þessum sýnum í ár og er stefnt að því að greiningum verði lokið í júní 2006.

Síðan hefur verið veittur framhaldsstyrkur úr AVS-sjóði sjávarútvegsráðuneytisins til þessarar greiningarvinnu, bæði til frekari sýnatöku og til að vinna úr þeim sýnum sem safnað hefur verið. Árið 2003 veitti umhverfisráðuneytið 300 þús. kr. í efnamælingar á seti í framangreind verkefni. Gert er ráð fyrir að fyrstu niðurstöður og hluti af skýringum eigi að liggja fyrir í byrjun árs 2006.

Umhverfisráðuneytið mun halda áfram að stuðla að nauðsynlegri almennri vöktun. Það er hins vegar álit Umhverfisstofnunar sem sér um umsýslu vöktunarverkefna vegna efnamengunar fyrir umhverfisráðuneytið að öflugra grunnrannsókna fremur en vöktunarrannsókna sé þörf til að skýra sérstöðu íslenska hafsvæðisins hvað varðar styrk kadmíns. Ég tel þess vegna brýnt að slíkar rannsóknir fari fram, enda er nauðsynlegt að fá úr því skorið hvað veldur þessum háa styrk kadmíns í lífríki Íslands. Það verður spennandi að sjá niðurstöðurnar af þessum rannsóknum, sem þegar hafa farið fram, þegar þær liggja fyrir í ársbyrjun á næsta ári.