132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Kadmínmengun í Arnarfirði.

106. mál
[15:40]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Mér finnst þetta taka mjög langan tíma og í rauninni litlum fjármunum vera varið til þessara rannsókna miðað við hvað hér er um ríka hagsmuni að tefla. Sérstaklega í ljósi þess að á Bíldudal í Arnarfirði er slæmt atvinnuástand og fólk leit til þess að ef mögulegt væri að rækta krækling væri e.t.v. hægt að lyfta atvinnuástandinu upp á ný. Nei, það er ekki hægt að klára þær rannsóknir sem eru forsenda fyrir því að hægt sé að fara í nýsköpun. Það vill svo til að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók veiðiréttinn og gerði hann að söluvöru og búið er að selja hann í burtu. Síðan þegar fólk hyggst fara út í nýjan atvinnurekstur, nýsköpun, og upp koma ákveðin vandamál þá getur ríkisstjórnin eða stjórnvöld ekki komið sér að því að rannsaka það sem er í veginum fyrir því. Þetta tekur á annað ár eða tvö ár. Mér finnst það hneyksli, frú forseti.