132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Vöktun vegna teknesíum-99 í hafinu.

175. mál
[15:48]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Hér er hreyft mjög alvarlegu máli sem Íslendingar hafa lengi haft miklar áhyggjur af. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir þrautseigju hennar í umræðu um þessi mál.

Geislavarnir ríkisins fylgjast með styrk teknetíns í hafinu umhverfis Ísland. Rannsóknirnar sýna að styrkur í þangi er almennt lágur, 1–10 becquerel á hvert kíló. Mælingar á hafsvæðinu milli Grænlands og Íslands árið 1999 sýndu að styrkur í sjó var 0,06–0,09 becquerel á hvern rúmmetra. Mælingar frá árinu 2003 fram í febrúar á þessu ári sýna ekki marktæka breytingu en hæstu gildin eru í pólsjó að norðan, 0,1–0,2 becquerel á hvern rúmmetra. Styrkur teknetíns minnkar eins og búast má við eftir því sem efnið berst lengra frá Sellafield. Mæligildi frá Færeyjum eru sambærileg við íslensk gildi en styrkur teknetíns er hins vegar áberandi meiri í sjónum við strendur Noregs 0,7–1,8 becquerel á hvern rúmmetra.

Í apríl í fyrra birtu bresk stjórnvöld niðurstöður tilraunaverkefnis sem miðaði að því að draga úr losun á teknetíni frá endurvinnslustöðinni í Sellafield. Niðurstöður sýndu að þegar í stað yrði unnt að minnka losun um 90%. Þáverandi losun var 90 tera-becquerel á ári. Í dag er losunin innan við 10 tera-becquerel á ári.

Á þessari stundu hafa bresk stjórnvöld ekki uppi frekari áform um minnkun á losun teknetíns frá Sellafield að því er vitað er. Bresk stjórnvöld hafa hins vegar samkvæmt samningnum um verndun Norðaustur-Atlantshafsins skuldbundið sig til að grípa til frekari aðgerða til að draga úr losun geislavirka efna út í umhverfið fyrir árið 2020.

Bresk stjórnvöld hafa ekki lokið við gerð skýrslu um atvikið sem átti sér stað þegar um 83 þús. rúmlítrar af geislavirkum vökva láku úr skemmdu röri í endurvinnslustöðinni í Sellafield. Hún hefur verið lokuð síðan en samkvæmt upplýsingum sem fengust frá breska iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu er ekki vitað á þessari stundu hvenær vinnu við gerð skýrslunnar lýkur. En strax og upplýsingar bárust um þetta atvik ritaði ég umhverfisráðherra Bretlands bréf og lýsti áhyggjum Íslendinga af ástandi mála. Jafnframt tók ég málið upp á fundi norrænu umhverfisráðherranna á Grænlandi um miðjan ágúst síðastliðinn. Ég hvatti til þess að Norðurlöndin stæðu saman í að þrýsta á bresk stjórnvöld um úrbætur í öryggismálum í Sellafield. Það er ljóst að það stendur ekki á samstöðu norrænu umhverfisráðherranna hvað þessi mál varðar.

Kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Dounreay hefur verið lokað og öll vinnsla með kjarnorkuúrgang stöðvuð. Nú er unnið að frágangi svæðisins, geymslu úrgangs og niðurrifi mannvirkja. Áætlanir gera ráð fyrir því að þeirri vinnu verði lokið árið 2036.

Á fundi norrænu umhverfisráðherranna sem var haldinn 26. október síðastliðinn í Reykjavík kynnti ég síðustu tíðindi af málefnum Sellafield. Niðurstaða þeirrar umræðu var sú að ég mundi halda áfram að halda norrænum samstarfsráðherrum upplýstum um þessi mál. Ef ástæða verður til geri ég tillögu til þeirra um frekari sameiginlegar aðgerðir Norðurlandanna, hvort sem er á vettvangi samningsins um verndun Norðaustur-Atlantshafsins eða í tvíhliða samskiptum við bresk stjórnvöld.

Eins og ég nefndi áðan deilum við norrænu umhverfisráðherrarnir áhyggjum af þessum málum en enn þá liggur ekki fyrir skýrsla breskra yfirvalda. Það er ljóst að ekki verður um viðbrögð að ræða fyrr en hún er komin fram.