132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Styrkir til kúabænda.

230. mál
[19:07]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra talar um framleiðslu á hvert bú. Líka hefði verið fróðlegt að heyra hvað hefur verið framleitt á lögaðila því að einn lögaðili kaupir upp jarðir, jafnvel í tugavís, jarðir sem framleiða mjólk. Hann kaupir upp mjólkurkvótann. Það geta verið mörg bú en einn lögaðili á þau.

Ég er ekki viss um að það styrki samkeppnisstöðu mjólkurframleiðslunnar ef einn og sami lögaðilinn er kominn með á sínar hendur kannski milli 1 og 2 milljónir lítra eða 40, 50 eða 60 millj. íslenskra kr. í ríkisstuðning. Það snýst ekki bara um ríkisstuðninginn, heldur líka þá bústærð, það búskaparform, að lögaðili sé farinn að reka fjölda búa og rokka til og frá með framleiðsluréttinn sem ég held að styrki ekki samkeppnisstöðu mjólkurframleiðslunnar.