132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Styrkir til kúabænda.

230. mál
[19:08]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra talaði um að mjólkurvörur hefðu ekki hækkað undanfarin ár og þess vegna vil ég að það komi hér fram að mjólkursamningurinn sem var gerður færði bændum verulega hærri styrki en höfðu verið fyrir. Það er ástæða til að muna eftir því þegar menn tala um þetta verð.

Síðan er það þannig að þessi mjólkursamningur færði okkur ekki með neinum hætti fram til þeirrar framtíðar sem þó liggur fyrir að er, og hún er sú að breyta þarf styrkjum í landbúnaði. Eina breytingin sem hægt er að tala um þar var að einhver lítils háttar styrkur kemur til þeirra sem framleiða nautakjöt. Sá er eini munurinn. Alþingi brást algerlega í breytingum á þeim samningi sem þarna færði íslenska bændur ekki nær þeirri framtíð sem er fram undan. (Forseti hringir.) Auðvitað mun koma að því að menn þurfa að horfast í augu við hana.