132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Stofnanir fyrir aldraða.

111. mál
[19:17]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 7. þm. Suðurk. Björgvin G. Sigurðsson hefur beint til mín fyrirspurn um stofnanir fyrir aldraða og spyr:

„Hversu margir undir 67 ára aldri dvelja á stofnunum fyrir aldraða?“

Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið tók saman í febrúar sl. voru 87 einstaklingar á þeim tíma yngri en 67 ára sem dvöldu á öldrunarstofnunum. Af þeim einstaklingum yngri en 67 ára sem dvöldu á öldrunarstofnunum í febrúar sl. voru 56 þeirra eldri en 60 ára og 31 undir sextugu. Það er vert að undirstrika að þótt öldrunarstofnanir séu byggðar sérstaklega með aldraða í huga er ekki þar með sagt að þær séu lokaðar þeim sem eru yngri en 67 ára.

„Eru á næsta fjárlagaári áætlanir um uppbyggingu deilda fyrir fólk með heilabilun? Ef svo er, hvar er sú uppbygging fyrirhuguð?“

Þessu er til að svara að nú eru þegar hafnar eða eru á næsta leiti framkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða á Selfossi, Akureyri, í Neskaupstað og við Suðurlandsbraut í Reykjavík. Í öllum þessum byggingum verður fyrir hendi möguleiki á að hafa lokaða deild fyrir heilabilaða sé þess þörf. Það verður metið eftir aðstæðum og þörf á hverjum tíma og á hverjum stað fyrir sig hvað þessar deildir verða með mörgum vistmönnum.

Ég vona að þessar upplýsingar veiti þingmanninum fullnægjandi svör við spurningunum.