132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Stofnanir fyrir aldraða.

111. mál
[19:21]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að þetta mál skuli koma til umræðu en jafnframt bendi ég á dæmi um að sjómenn sem hafa orðið öryrkjar og legið um langt árabil á spítölum hafa komið t.d. á hjúkrunarheimili eins og Hrafnistu. Það var gert með sérstöku bréfi sem ráðuneytið ritaði til hjúkrunarheimilisins fyrir nokkrum árum. Ég veit að dæmi eru um það og þeim hefur liðið betur þar en að vera bundnir á spítala.

Varðandi það sem snýr að heilabilun er það ákaflega mikið vandamál, t.d. úti á landi, þar sem 2–3 eru heilabilaðir og vistast á hjúkrunarheimili með kannski 40 öðrum heimilismönnum. Það er mjög erfitt að loka þá aðila af sérstaklega þannig að hér er geysilega víðfeðmt mál sem þarf að taka á. Þetta er ekki vandamál, þetta er viðfangsefni og ég hef trú á því að með samstilltu átaki muni þetta mál nást þannig fram að vel megi við una. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra er verið að vinna að þessu máli af miklum krafti og ég þakka fyrir það.