132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Afsláttarkort vegna lækniskostnaðar.

152. mál
[19:37]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Það er verið að benda hér á mjög mikilvæg atriði og mikla réttindabót. Það þarf auðvitað að taka á gildistíma kortanna, það hefur verið rætt hér margsinnis, og auðvitað er það nútíminn að menn fái svona afsláttarkort send og þetta gangi rafrænt fyrir sig.

Fulltrúar Tryggingastofnunar ríkisins voru á fundi heilbrigðis- og trygginganefndar í morgun þar sem þeir kvörtuðu yfir því að tölvukerfið hjá þeim væri orðið mjög gamaldags og aftarlega tæknilega og töluðu þeir um að ráða þyrfti bót á því til þess að þeir geti verið nútímalegir í vinnubrögðum. Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni ekki sjá til þess að Tryggingastofnun ríkisins fái viðunandi tæknibúnað þannig að hún geti tileinkað sér nútímaleg vinnubrögð eins og þau að koma þessum kortum á rafrænt form. Það eru líka mörg fleiri kort sem þyrftu auðvitað að berast á þann hátt og safnast upp. Það er lyfjakostnaður, það er tannlæknakostnaður hjá ellilífeyrisþegum, það eru allar þessar upplýsingar. Auðvitað væri eðlilegast að hver og einn einstaklingur hefði sitt sjúkrasamlagskort, sitt Tryggingastofnunarkort, þar sem safnast upp þær upplýsingar sem þarf til þess að hann geti síðan framvísað því og sýnt fram á að hann eigi ákveðinn rétt í kerfinu en að fólk þurfi ekki alltaf að vera að bera sig eftir björginni. Við vitum að það er fjöldi fólks sem getur það ekki vegna þess að það hefur ekki heilsu til þess eða getu á annan hátt og verður af því að fá þennan rétt.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Mun hann tryggja Tryggingastofnun ríkisins þann tæknibúnað sem þarf til þess að hún geti orðið nútímalegri í vinnubrögðum?